Samþykkt um hunda- og kattahald

UMH15020052

 

Samþykkt

um hunda- og kattahald í Skaftárhreppi.

Nr. 970/2015

I. kafli
Hundahald.

1. gr.

Hundahald í Skaftárhreppi sætir þeim takmörkunum sem settar eru í samþykkt þessari. Reglugerð nr. 1077/2004, um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni, gildir auk ákvæða þessarar samþykktar þar sem við á. Þarfahundar á lögbýlum eru undanþegnir ákvæðum d-, e- og j- liðar 2. gr. þessarar samþykktar.

2. gr.

Sveitarstjórn eða umboðsaðila hennar, er heimilt að veita lögráða einstaklingum, sem búa í sveitarfélaginu leyfi til hundahalds. Leyfið er bundið við nafn og heimilisfang einstaklingsins og óheimilt er að framselja það. Leyfið er einnig bundið við þann hund sem sótt er um heimild fyrir hverju sinni. Leyfi er háð eftirfarandi skilyrðum:

a) Um hundahald í fjöleignarhúsum fer samkvæmt 33. gr. laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús. Áður en hundur er tekinn inn á heimili í fjöleignarhúsi skal afla samþykkis eigenda annarra íbúða í samræmi við ákvæði laganna og skal skriflegt samþykki hluteigandi íbúa/íbúðareigenda skv. 33. gr. a laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús, fylgja umsókn.

b) Leyfisgjald skal greiða árlega til sveitarsjóðs eftir gjaldskrá sem sveitarstjórn setur skv. 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og lætur birta í B-deild Stjórnartíðinda. Sveitarstjórn er heimilt að fella niður eða ákveða lægra gjald fyrir nytjahunda, t.d. hunda sem notaðir eru til löggæslu eða björgunarstarfa. Af leiðsöguhundum sem blindir eða sjóndaprir nota vegna fötlunar sinnar skal ekki greiða gjald. Gjaldið skal greitt fyrirfram í fyrsta sinn við skráningu hunds til næstkomandi marsmánaðar og síðan árlega 1. mars fyrir eitt ár í senn.

c) Hundurinn skal vera ormahreinsaður og skulu hundar færðir til hreinsunar ár hvert til dýralæknis. Gjald vegna ormahreinsunar er ekki innifalið í leyfisgjaldi.

d) Skylt er að hafa í gildi ábyrgðartryggingu vegna hundsins. Ábyrgðartrygging skal ná til alls þess tjóns sem hundurinn kann að valda mönnum, dýrum, gróðri og munum. Ábyrgðartrygging er innifalin í greiðslu árlegs leyfisgjalds.

e) Eigandi eða umráðamaður hunds skal auðkenna hann varanlega með húðflúri eða örmerki. Hundur í þéttbýli skal ávallt bera ól um hálsinn. Á ólinni skal vera plata sem í er grafið skráningarnúmer hundsins. Einnig skal vera merki þar sem fram kemur nafn eiganda og heimilisfang.

f) Óheimilt er með öllu að láta hunda ganga lausa innan marka þéttbýlis og á beitilöndum búfjár nema nytjahunda þegar þeir eru að störfum í gæslu eiganda eða umráðamanns. Hundar skulu annars ávallt vera í taumi utanhúss og í fylgd manneskju sem hefur fullt vald yfir þeim. Hundar á lögbýlum mega ganga frjálsir á landareign eigenda sinna. Þegar hundur er í festi á lóð skal lengd festarinnar við það miðuð að óhindrað megi ganga að aðaldyrum hússins. Hundaeiganda er alltaf skylt að fjarlægja saur eftir hundinn.

g) Leyfishafa ber að sjá svo um að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði eða raski ró manna.

h) Óheimilt er að hleypa hundum inn í húsrými eða á lóðir, sbr. fylgiskjal 3 í reglugerð nr. 941/2002, um hollustuhætti.

Staðir sem hundar mega ekki fara inn á eru eftirfarandi:

1. Vatnsveitur, vatnsból og brunnsvæði þeirra, brunnar og sjóveitur.
2. Almennings- og útisalerni.
3. Hvers konar sorpgeymslu- og staðir þar sem úrgangur er meðhöndlaður.
4. Gististaðir, veitingastaðir og matsölustaðir.
5. Tjald- eða hjólhýsasvæði, nema samkvæmt ákvörðun umsjónaraðila.
6. Húsakynni þar sem geymd eru, framleidd eða seld matvæli.
7. Skólar, kennslustaðir, barnaheimili og gæsluvellir.
8. Rakarastofur, hárgreiðslustofur, hvers konar snyrtistofur og sólbaðsstofur.
9. Heilsuræktar- og íþróttastöðvar, íþróttahús og baðstaðir.
10. Fangelsi og aðrar vistarverur handtekinna manna.
11. Kirkjugarðar, bálstofur, líkhús og líkgeymslur.
12. Hvers konar sorpgeymslur og staðir þar sem úrgangur er meðhöndlaður.
13. Samkomuhús hvers konar, svo sem kirkjur, leikhús, hljómleikasalir, söfn og kvikmyndahús.
14. Almennar skrifstofur.
15. Almenn samgöngutæki.
16. Heilbrigðis-og meðferðarstofnanir.
17. Lækna- og tannlæknastofur.
18. Sjúkrahús og aðgerðarstofur.
19. Nuddstofur og sjúkraþjálfun.
20. Húðflúrstofur.
21. Sumarbúðir fyrir börn

i) Óheimilt er að láta hund dvelja lengur en einn mánuð á heimili án þess að sótt sé um leyfi fyrir honum.

j) Óheimilt er að hafa fleiri en tvo hunda eldri en þriggja mánaða á sama heimilinu. Hægt er að veita undanþágu frá þessu ákvæði í sérstökum tilfellum svo sem ef hundar eru ræktaðir í atvinnuskyni.

3. gr.

Umsóknum um leyfi til hundahalds ásamt ljósmynd af hundinum skal skila til skrifstofu sveitarstjórnar á þar til gerðum eyðublöðum. Með undirritun umsóknar skuldbindur umsækjandi sig til að hlíta í einu og öllu fyrirmælum samþykktar um hundahald. Sveitarstjóri í umboði sveitarstjórnar veitir eða synjar umbeðins leyfis. Leyfishafi fær afhenta plötu samanber ákvæði e- liðar 2. gr. Sé leyfis ekki vitjað mánuði eftir að það er veitt fellur það sjálfkrafa úr gildi. Leyfishafi skal tilkynna ef hundurinn drepst eða er fluttur úr sveitarfélaginu.

4. gr.

Lausa hunda skal tilkynna til skrifstofu sveitarfélagsins sem sér um að færa þá í sérstaka geymslu á vegum sveitarfélagsins. Sama gildir um hættulega hunda og óleyfilega. Kostnaður við handsömun og geymslu hunda skal að fullu greiddur af eigendum. Hunda sem ráðast á menn eða skepnur og bíta, skal fjarlægja og er heimilt að lóga þeim þegar í stað. Aðra hunda er heimilt að afhenda ef leyfi er framvísað innan sjö daga frá því að hundurinn er kominn í vörslu eftirlitsmanns enda verði áfallinn kostnaður greiddur samkvæmt gjaldskrá áður en afhending hundsins fer fram. Að öðrum kosti er heimilt að aflífa hundinn enda hafi eiganda verið tilkynnt um töku hundsins, ef unnt er. Aðeins dýralæknar mega aflífa gæludýr nema í neyðartilfellum þegar ekki næst í dýralækni.

II. kafli
Kattahald.

5. gr.

Kattahald í þéttbýli Skaftárhrepps sætir þeim takmörkunum sem settar eru í

samþykkt þessari.

6. gr.

Sveitarstjórn eða umboðsaðila hennar er heimilt að veita lögráða einstaklingum sem búa í sveitarfélaginu leyfi til kattahalds. Leyfið er bundið við nafn og heimilisfang einstaklingsins og óheimilt er að framselja það. Leyfið er einnig bundið við þann kött sem sótt er um heimild fyrir hverju sinni. Samþykkt þessi er gerð til að stuðla að því að eigendur og umráðamenn katta fari vel

með ketti og tryggi þeim góða vist, sjái til þess að þeir lendi ekki á flækingi eða valdi nágrönnum óþægindum.

Kötturinn skal skráður á skrifstofu Skaftárhrepps og þar fær eigandi kattarins afhenta númeraða plötu fyrir ól um háls kattarins þar sem fram kemur númer kattar. Ennfremur skal eigandi eða umráðamaður kattar láta auðkenna hann varanlega með húðflúri í eyra eða örmerki í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 1077/2004, um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni. Skrá skal slíkt merki við skráningu kattarins. Óleyfilegt er að halda kött þar sem enginn býr.

Leyfisgjald skal greiða árlega til sveitarsjóðs eftir gjaldskrá sem sveitarstjórn setur skv. 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og lætur birta í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldið skal greitt fyrirfram í fyrsta sinn við skráningu kattar til næstkomandi marsmánaðar og síðan árlega 1. mars fyrir eitt ár í senn.

7. gr.

Einungis er leyfilegt að hafa tvo ketti á hverju heimili nema viðkomandi sé ræktandi og skal hann þá skrá sig sérstaklega sem slíkur hjá sveitarstjórn. Ræktendum katta er skylt að fara eftir reglugerð 1077/2004, um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni, og afla tilskyldra leyfa samkvæmt henni.

8. gr.

Eiganda er skylt að sjá til þess að vel verði farið með kött hans sbr. ákvæði laga nr. 55/2013, um velferð dýra, og reglugerðar nr. 1077/2004, um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni.

9. gr.

Ef köttur veldur nágrönnum eða öðrum ónæði, óþrifum eða tjóni, þá ber eiganda eða umráðamanni að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt. Foreldrar eru ábyrgir fyrir köttum ólögráða barna sinna.

10. gr.

Eigendum og umráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, t.d. með því að hengja bjöllu á ketti og eftir atvikum að takmarka útiveru kattanna.

11. gr.

Sveitarstjórn er heimilt að banna eða takmarka rétt íbúa til að halda kött ef fyrir liggja ítrekaðar kvartanir um ónæði eða hættu sem kötturinn er sannanlega valdur að og eiganda eða umráðamanni tekst ekki að komast fyrir það sbr. 9. gr.

12. gr.

Um kattahald í fjölbýlishúsum vísast til ákvæða laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús.

13. gr.

Eiganda kattar er skylt að láta ormahreinsa kött sinn árlega og ber hann allan kostnað af hreinsun hans. Skylt er að ormahreinsa alla ketti fjögurra mánaða og eldri. Eiganda er skylt að geyma ormahreinsunarvottorð í þrjú ár og framvísa því við eftirlitsaðila ef óskað er.

14. gr.

Ef köttur hverfur frá heimili sínu skal eigandi eða umráðamaður gera ráðstafanir til að finna köttinn. Dýraeftirlitsmanni er heimilt að handsama ketti. Sé kötturinn merktur skal dýraeftirlitsmaður hafa tafarlaust samband við eiganda hans og láta vita um veru kattarins. Hafi kattarins ekki verið vitjað innan einnar viku skal honum ráðstafað til nýs ábyrgs eiganda eða hann aflífaður.

III. kafli
Eftirlit og fleira.

15. gr.

Heilbrigðisnefnd Suðurlands hefur eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar. Þjónustustöð Skaftárhrepps (áhaldahús) hefur eftirlit með hunda- og kattahaldi í Skaftárhreppi í umboði heilbrigðisnefndar. Starfsmenn þjónustustöðvar Skaftárhrepps (áhaldahúss), fyrir hönd sveitarstjórnar, sjá um framkvæmd og eftirlit með að ákvæðum samþykktar þessarar sé framfylgt og geta leitað aðstoðar lögregluyfirvalda þegar þess er þörf. Þjónustustöð Skaftárhrepps (áhaldahús) skal gera skriflega skýrslu um þau dýr sem stöðin þarf að hafa afskipti af. Á skrifstofu sveitarfélagsins skal færa upplýsingar um leyfð dýr í þar til gerða bók ásamt nafni og heimilisfangi leyfishafa.

Með brot gegn samþykkt þessari, valdsvið, þvingunarúrræði, málsmeðferð, úrskurði og viðurlög fer samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

16. gr.

Samþykkt þessi staðfestist hér með skv. 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 314/1995 um takmörkun hundahalds í Skaftárhreppi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 14. október 2015

F.h.r.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir (sign)

Laufey Helga Guðmundsdóttir (sign)