Atvinnumál

Það eru 650 íbúar í Skaftárhreppi árið 2020.

Það sem er athyglisvert er að það eru mjög margir íbúar með erlent ríkisfang. Ferðaþjónustan hefur laðað til sín fólk alls staðar að úr heiminum. Á Hagstofu Íslands má sjá upplýsingar um íbúafjölda. Hér er ein mynd sem var tekin af vef Hagstofunnar.

Íbúafjöldi á öðrum ársfjórðungi 2020

Við hvað vinna íbúar Skaftárhrepps? 

Íbúar Skaftárhrepps vinna við eitt og annað en árið 2019 var ferðaþjónustan sú grein sem flestir störfuðu við. Það má lesa nánari upplýsingar um Hagtölur um atvinnulíf á Suðurlandi með sérstaka áherslu á ferðaþjónustu, á vef Sambands sunnlenskra sveitarfélaga. 

Það er hópur á facebook þar sem er fjallað um atvinnumál í Skaftárhreppi

Skaftárhreppur var fyrst og fremst landbúnaðarhérað þar sem sauðkindin var mikilvægust. Fólk lifði á sauðfjárbúskap en margir fóru í verið til að afla fjár. Árið 1958 var farið að selja mjólk og flytja í Mjólkurbú Flóamanna en þangað til höfðu menn kýr aðeins til að sjá heimilinu fyrir mjólk. Árið 1971 hóf Kirkjubæjarskóli á Síðu starfsemi og leysti þar með af litlu skólana í sveitunum. Með tilkomu skólans stækkaði þéttbýlið á Klaustri ár frá ári. Kennarar byggðu sér hús á Klaustri og þjónusta jókst.

Fyrir 1970 var komið sláturhús og frystihúsið á Klaustri, póstur og sími var í burstabænum á hlaðinu, prestsbústaðurinn var reistur 1939, læknisbústaður, með móttöku fyrir sjúklinga á neðri hæðinni, var byggður á Klaustri 1950 og félagsheimiliið Kirkjuhvoll reis á árunum kringum 1950. Ýmis þjónusta varð til í Skaftárhreppi, flest staðsett á Klaustri: Bankaútibú, verslun, bílaverkstæði, trésmíðaverkstæði, leikskóli, byggt var sérstakt hús fyrir póst og síma sem nú er Vínbúðin og mætti áfram telja. 

Hringvegurinn 1974 breytti veröldinni, eftir opnun hans var Klaustur í alfaraleið. Ferðaþjónusta var áður á Flögu í Skaftártungu og Gistihúsið á Klaustri tók á móti gestum allt árið og reistar voru svefnálmur, sem nú eru hluti af Hótel Klaustri. Það var talin mikil bjartsýni þegar reist var sú bygging sem er Hótel Klaustur 1994. Á nokkrum bæjum var byrjað með bændagistingu: Geirlandi, Hunkubökkum og Efri-Vík.

Ferðaþjónustan hefur verið sú atvinnugrein sem hefur gjörbreytt öllu í Skaftárhreppi. Fyrst var sumarferðamennska en frá aldamótunum 2000 lengdist ferðatímabilið og má segja að frá 2005 hafi verið ferðaþjónusta allt árið. Síðustu ár hefur ferðaþjónusta verið stærsta atvinnugreinin í Skaftárhreppi en landbúnaður og önnur þjónusta þar á eftir. 

Matvælafyrirtæki eru nokkur, sem ýmist framleiða mat eða vinna úr hráefni sem til er, og verður spennandi að fylgjast með hvernig sú starfsemi þróast. Þeir sem vilja ræða málin og fylgjast með geta fundið hópa á facebook sem heitir Matvælaframleiðsla í Skaftárhreppi

Matvælaframleiðendur í Skaftárhreppi 

Handverkssláturhúsið í Seglbúðum selur lambakjöt info@seglbudir.com og thorjul@gmail.com

Kjötvinnslan Borgarfelli selur lambkjöt og fl. www.facebook.com/borgarfell/ borgarfell@simnet.is

Klausturbleikja bleikjueldi á Teygingalæk, vinnsla á Klaustri klausturbleikja@klausturbleikja.is

Lindarfiskur bleikjueldi í Botnum lindarfiskur@lindarfiskur.com

Sandhóll í Meðallandi, hafrar, repjuolía og nautakjöt orn@sandholl.is

Fossís, framleiðir ís langholtsbuid@gmail.com

 

Hópur fólks stofnaði Handverksmiðju þar sem markmiðið er að vinna úr hráefni úr heimabyggð. Hópurinn hefur aðstöðu í kjallara félagsheimilisins Kirkjuhvols á Kirkjubæjarklaustri. Það hafa nokkrir einstaklingar verið að vefa í vefstólum sem þar eru og vinna úr ull. Svo hafa nokkrir tekið með sér prjónana. Þeir sem vilja taka þátt eða fylgjast með vinnu þessa hóps geta fundið hópinn Handverkssmiðja í Skaftárhreppi á facebook. 

Klaustur

Myndin er tekin uppi á Klausturheiðinnni. Sjá má hótelið, skólabyggingarnar, íþróttahúsið, sundlaugina og grunn gestastofu VJP. (Ljósm. LM)