Um Skaftárhrepp

Skaftárhreppur er einn af landstærstu hreppum Íslands. Flestir búa í dreifbýli. Íbúar í Skaftárhreppi voru 625  1. janúar 2021. Aðalatvinnuvegir eru landbúnaður og ferðaþjónusta. Veðursæld er í Skaftárhreppi þar sem vetur eru mildir og sumur hlý. Margar náttúruperlur eru í hreppnum s.s. Landbrotshólarnir, Dverghamrar og Fjaðrárgljúfur. Hluti Skaftárhrepps er á Vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem eru Lakagígar, Eldgjá og Langisjór.

Skaftárhreppur  er austurhluti Vestur Skaftafellssýslu og nær frá Blautukvísl á Mýrdalssandi austur á Skeiðarársand, frá fjöru í suðri og inn að Tungná í norðri. Hreppurinn dregur nafn sitt af ánni Skaftá, sem á aðalupptök sín undir Skaftárjökli. Skaftárhreppur var stofnaður 1990 þegar sameinuðust fimm hreppar; Hörgslandshreppur, Kirkjubæjarhreppur, Leiðvallahreppur, Skaftártunguhreppur og Álftavershreppur.

Kirkjubæjarklaustur er eina þéttbýlið í Skaftárhreppi. Fyrir 1970 var komið sláturhús og frystihúsið á Klaustri, póstur og sími var í burstabænum á hlaðinu, prestsbústaðurinn var reistur 1939, læknisbústaður, með móttöku fyrir sjúklinga á neðri hæðinni, var byggður á Klaustri 1950 og félagsheimiliið Kirkjuhvoll reis á árunum kringum 1950. Árið 1971 hóf Kirkjubæjarskóli á Síðu starfsemi og leysti þar með af litlu skólana í sveitunum. Með tilkomu skólans stækkaði þéttbýlið á Klaustri ár frá ári. Starfsfólk skólans, bankanna, verslunarinnar og fleiri byggðu sér hús á Klaustri og þjónusta jókst. Á Klaustri er Heilsuleikskólinn Kæribær, íþróttamiðstöð með sundlaug, verslanir, heilsugæslustöð, lögreglustöð, bílaþjónusta, trésmíðaverkstæði, gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs og fleira.

Landslag og gróðurfar í Skaftárhreppi er mjög fjölbreytilegt og andstæður í náttúrunni miklar. Miklar náttúruhamfarir hafa mótað landslag og mannlíf héraðsins. Skaftáreldar sem brunnu frá 1783 – 1784 móta landið og söguna. Skaftáreldahraunið, sem oft er kallað Eldhraun, er talið eitt það stærsta sem runnið hefur í einu gosi í heiminum. Í Mýrdalsjökli er eldstöðin Katla sem margsinnis hefur gosið frá því að sögur hófust, síðast var stórt gos árið 1918. Mikil jökulhlaup hafa fallið niður Mýrdalssand í kjölfar Kötlugosa og ógnað byggðum í nágrenninu.

Það eru fleiri miklar eldstöðvar í Skaftárhreppi og nágrenni sem hafa sem gosið á sögulegum tíma. Þar má nefna Eldgjá í Skaftártungu, Öræfajöklul auk eldgosa í smærri eldstöðvum. Árið 1996 var eldgos í Grímsvötnum sem oftast er nefnt Gjálpargosið. Mikið jökulhlaup varð í kjölfar gossins sem fleytti risastórum jökum suður Skeiðarársandinn og tók af brýr og veginn að hluta. Mikið öskugos varð í Grímsvötnum í Vatnajökli árið 2011 og setti það svip á náttúru og mannlíf í nokkurn tíma. Skaftárhlaup hafa orðið síðustu ár. Þannig er náttúran síkvik í Skaftárhreppi og margt að skoða fyrir náttúrufræðinga og ferðamenn.

Skaftárhreppur var fyrst og fremst landbúnaðarhérað  þar sem sauðkindin var mikilvægust. Fólk lifði á sauðfjárbúskap en margir fóru í verið til að afla fjár. Árið 1958 var byrjað að selja mjólk og flytja í Mjólkurbú Flóamanna en þangað til höfðu menn kýr aðeins til að sjá heimilinu fyrir mjólk.

Hringvegurinn 1974 breytti veröldinni, eftir opnun hans var Skaftárhreppur í alfaraleið. Ferðaþjónusta var áður á Flögu í Skaftártungu og Gistihúsið á Klaustri tók á móti gestum allt árið og reistar voru svefnálmur, sem nú eru hluti af Hótel Klaustri. Það var talin mikil bjartsýni þegar reist var sú bygging sem er Hótel Klaustur 1994. Á nokkrum bæjum var byrjað með bændagistingu: Geirlandi, Hunkubökkum og Efri-Vík.

Ferðaþjónustan hefur verið sú atvinnugrein sem hefur gjörbreytt öllu í Skaftárhreppi. Fyrst var sumarferðamennska en frá aldamótunum 2000 lengdist ferðatímabilið og má segja að frá 2005 hafi verið ferðaþjónusta allt árið. Síðustu ár hefur ferðaþjónusta verið stærsta atvinnugreinin í Skaftárhreppi en landbúnaður og önnur þjónusta þar á eftir. Frá því að covid-19 byrjaði í mars 2020 hefur ferðaþjónusta verið í algjöru lágmarki þó allmargir Íslendingar hafi lagt leið sína í Skaftárhrepp sumarið 2020 og vonandi kom ferðaþyrstir Íslendingar líka sumarið 2021.

 

 

Kirkjubæjarklaustur

Hér sjást elstu húsin á Klaustri. Burstabærinn var byggður 1884, húsið við hliðina var byggt 1936 og þar ólst Erró upp. Til vinstri á myndinni er gamla kaupfélagshúsið gult á litin en það hvíta með risinu var byggt síðar sem verslunarhús og íbúð fyrir verslunarstjóra. Lága húsið sem er blátt á litin var byggt sem pakkhús en þar er nú sláturhús Klausturbleikju. Gönguleiðin Ástarbrautin byrjar við Systrafoss, 5 km hringleið. Skógurinn er frá því 1945 og þar er hæsta tré á Íslandi. Uppi á brúninni er inntakshús fyrir heimarafstöð sem er í gangi. Inntakshúsið er líka listaverk, Gullmolinn, sem minnir okkur á sögu og mikilvægi litlu heimarafstöðvanna síðustu öld. (Ljósm. LM)

 

Skaftárhreppur til framtíðar

Skaftárhreppur var um tíma eitt þeirra sveitarfélaga sem tók þátt í verkefninu Brothættar byggðir á vegum Byggðastofanunar. Eirný Valsddóttir var ráðinn verkefnisstjóri árið 2015 og stýrði því til haustsins 2017 þegar Þuríður Helga Benediktsdóttir tók við verkefnisstjórninni, en verkefninu lauk í desemberlok 2017.  

Mikill viðsnúningur hefur átt sér stað og mörg v

erkefni fengið framgang síðustu ár s.s. lagning ljósleiðara um allan hreppinn, fjölgun starfa og þar með íbúa, bættar samgöngur, þriggja fasa rafmagn á flesta bæi og unnið hefur verið að lagningu raflína í jörð sem minnkar líkur á að verði rafmagnslaust í vondum veðrum. Verkefnið í Skaftárhreppi hét; Skaftárhreppur til framtíðar og má svo sannarlega segja að vel hafi tekist til og framtíðin sé björt í Skaftárhreppi. Lesa má um verkefnið Brothættar byggðir á vef Byggðastofnunar.  þar sem líka má sjá þjónustukort sem sýnir það sem er í boði af þjónustu í hreppnum.

Á meðan á verkefninu stóð voru veittir styrkir til ýmissa verkefna. Margir þessara styrkja skiftu miklu máli um það að verkefnin urðu að veruleika. Það er því ástæða til að halda til haga þessum úthlutunum. Hér eru skrár sem sýna úthlutun styrkja 2015-2016, 2017 og 2018. Það er líka skemmtilegt að skoða samantekt að loknu íbúaþingi sem var haldið árið 2013. Þar voru lagðar línur um hvað þyrfti að bæta í Skaftárhreppi.

Árið 2016 horfðu menn fram í tímann og ræddu hvernig þeir vildu að lífið gengi fyrir sig í Skaftárhreppi árið 2020. Margt af því sem var lagt var upp með hefur tekist. Árið 2020 hefur þó snúið öllu á hvolf aftur en vonandi rísa upp aftur öll þau ferðaþjónustufyrirtæki sem hér höfðu haslað sér völl. En það er gaman að lesa þessa greinargerð og velta fyrir sér hvað hefur áunnist og hvað við eigum eftir að gera.

Hér sjást elstu húsin á Klaustri. Burstabærinn var byggður 1884, húsið við hliðina var byggt 1936 og þar ólst Erró upp. Til vinstri á myndinni er gamla kaupfélagshúsið gult á litin en það hvíta með risinu var byggt síðar sem verslunarhús og íbúð fyrir verslunarstjóra. Lága húsið sem er blátt á litin var byggt sem pakkhús en þar er nú sláturhús Klausturbleikju. Gönguleiðin Ástarbrautin byrjar við Systrafoss, 5 km hringleið. Skógurinn er frá því 1945 og þar er hæsta tré á Íslandi. Uppi á brúninni er inntakshús fyrir heimarafstöð sem er í gangi. Inntakshúsið er líka listaverk, Gullmolinn, sem minnir okkur á sögu og mikilvægi litlu heimarafstöðvanna síðustu öld. (Ljósm. LM)