Tilkynning frá sveitarstjórn Skaftárhrepps vegna lokunar verslunarinnar Kjarval

Forsvarsmenn verslunarinnar Kjarvals á Kirkjubæjarklaustri komu að máli við sveitarstjórn Skaftárhrepps þann 24. nóvember og tilkynnti þeim fyrirhugaða lokun verslunarinnar á Kirkjubæjarklaustri frá og með 1. janúar 2021. Fyrir fundinn höfðu sveitarstjórnarmönnum engar upplýsingar borist varðandi lokunina.

 

Sveitarstjórn vill af því tilefni koma á framfæri vonbrigðum með þennan stutta fyrirvara sem íbúum er gefinn, því ógerlegt er að koma upp nýjum valkosti í matvöruverslun innan þessa tímaramma. Sveitarstjórn Skaftárhrepps getur ekki á nokkurn hátt stutt við eða talað fyrir lausnum sem skerða þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Slíkt rýrir samkeppnishæfni sveitarfélagsins sem ákjósanlegan búsetukost til framtíðar.

 

Í ljósi þess að þúsundir manna fara um Skaftárhrepp á hverjum degi í eðlilegu árferði hlýtur staðsetning fyrir verslun á Kirkjubæjarklaustri að teljast fýsilegur kostur.

 

Sveitarstjórn hefur falið sveitarstjóra að leita allra leiða til að tryggja að áfram verði rekin dagvöruverslun í sveitarfélaginu og er sú vinna komin af stað. Systrakaffi ehf. keyptu á dögunum það húsnæði sem verslunin Kjarval er í. Sveitarstjórn átti góðan fund með nýjum eigendum í gær þar sem farið var yfir áform Systrakaffis varðandi rekstur í húsnæðinu. Þar kom fram að það er eigendum Systrakaffi efst í huga að tryggja að áfram verði rekin verslun í þessu húsnæði og eru þau að skoða alla möguleika hvað það varðar. 

Það er þó ljóst að engin verslun verður á svæðinu í byrjun næsta árs sama hver niðurstaðan verður þar sem húsnæðið er komið á mkið viðhald og talsvert verk fyrir höndum fyrir nýja rekstraraðila.