Súsanna skrifar um ættleiddan ísbjörn og undarlega gesti

Súsanna með bókina um Jónas ísbjörn og jólasveinana. Bókin hentar vel fyrir litla lestrarhesta sem k…
Súsanna með bókina um Jónas ísbjörn og jólasveinana. Bókin hentar vel fyrir litla lestrarhesta sem kunna að meta ævintýri. (Ljósm. LM)

Mér finnst skemmtilegast að lesa ævintýri og bókin um Jónas er ævintýri, segir Súsanna M. Gottsveinsdóttir sem skrifaði bókina Jónas ísbjörn og jólasveinarnir sem kom út  haustið 2021. Sagan af Jónasi gerist í sveit og þar er Súsanna á heimavelli því hún ólst upp á Holti í Álftaveri þar sem fjölskylda hennar býr.

Í bókinni segir af ísbirninum Jónasi sem finnur mann í fjárhúsunum. Maðurinn hagar sér undarlega og gerir hluti sem koma Jónasi mjög illa og foreldrum hans er ekki skemmt. Myndirnar sem Viktoría Buzukina teiknaði lýsa vel því sem gengur á og bæta miklu við söguna. Súsanna og Viktoría hafa gert virkilega fallega bók sem verður vonandi á leslista barna fyrir þessi jól og næstu jól. Ævintýrið hentar mjög vel fyrir krakka á aldrinum þriggja til tólf ára og getur hentað vel fyrir börn sem eru að læra að lesa.

Súsanna er þessa dagana á þönum að lesa upp úr bókinni. Hún var í Guðmundarlundi um helgina og einn daginn skrapp Súsanna til Víkur í Mýrdal og í heimsókn á Klaustur. Á Klaustri las hún fyrir börnin á Kærabæ og nemendur 1. - 5. bekkjar Kirkjubæjarskóla á Síðu. Það kom Súsönnu á óvart að Héraðsbókasafnið á Kirkjubæjarklaustri hafði minnkað verulega frá því að hún var í skóla en í minningunni var þetta geysilega stórt bókasafn. Súsanna átti góðar stundir á bókasafninu þegar hún var í skóla og var búin með allt sem hana langaði að lesa í barnadeildinni þegar hún var tólf ára og þá var að fikra sig áfram og leita að bókum uppi á svölunum þar sem fullorðinsævintýrin eru.

 

Jónas ísbjörn og jólasveinarnir