Þorlákur helgi Þorláksson, prestur á Kirkjubæ, ábóti á Þykkvabæjarklaustri og biskup í Skálholti

Þorlákur er eini íslenski dýrlingurinn. Allir Íslendingar minnast hans á Þorláksmessu og éta skötu í gríð og erg honum til heiðurs. Þorlákur Þórhallsson var frá Hlíðarenda í Fljótshlíð en hafði stundað nám í Odda. Hann varð prestur, aðeins 18 ára, en á þessum tíma var mikill prestaskortur í landinu. Seinna fór Þorlákur til náms í París og Englandi og var utan sex ár. Hann kom þá heim og gerðist prestur á Kirkjubæ á Síðu. Þegar hann var búinn að vera þar í sex ár gerðist hann kanoki í fyrsta íslenska Ágústínaklaustrinu sem var stofnað 1168 og var orðinn ábóti þegar hann nokkrum árum síðar varð biskup í Skálholti. Til er saga Þorláks biskups og þar kemur fram að honum líkaði afar vel að búa og starfa á Kirkjubæ og það var með trega að hann yfirgaf þann stað til að vinna að uppbyggingu klausturstarfsins í Þykkvabæ í Veri en þann stað þekkjum við í dag sem Þykkvabæjarklaustur í Álftaveri.

Þorlákur Þórhallsson er eini helgi maðurinn sem Íslendingar eiga og var það Jóhannes Páll páfi II sem gaf út tilskipun 1985 þess efnis að hann hefði valið Þorlák helga verndardýrling Íslands. Í sögu Þorláks kemur fram að fólki þótti gott að heita á hann og hjálpaði hann mörgum. Saga er af konu sem fékk augnaverk mikinn og hét á Þorlák og varð hún þegar heil. Í vatnavöxtum misstu menn kistur tvær fullar af verðmætum en þær heimtust þegar heitið var á Þorlák. Menn komust yfir ár eftir að hafa heitið á Þorlák og á alþingi fékk blindur maður sýn og daufur maður heyrn þegar lesnar voru upp Jarteinir Þorláks biskups. Þorlákur helgi var greinilega áhrifamikill og er kannski enn, ef menn heita á hann.

Það má lesa meira um Þorlák helga og líf hans á Eldsveitir.is

 

Texti Lilja Magnúsdóttir. Lesari Lilja Magnúsdóttir. 

Vinir Vatnajökuls