Þjóðsaga: Loðni maðurinn á Skarði

Það hefur alloft borið við að lík sjódrukknaðra manna hafi rekið á land á Meðallandsfjörum. Það bar við fyrir löngu, að á fjöru einni í Meðallandi fannst rekinn maður nokkur, sem þótti mjög einkennilegur útlits. Klæðlaus var hann, en allur kafloðinn og með klær á tám og fingrum. Enda þótt öllum stæði stuggur af líki þessu, þá var það þó flutt til bæjar og því gjörð kista eins og venja er til.

Þá var enn kirkja á Skarði í Meðallandi og kirkjugarður á sama stað. Sá staður er nú fyrir löngu eyddur af sandfoki með hjáleigum sínum. Að Skarði var líkið flutt til greftrunar. En er jarðarförin skyldi hefjast og menn ætluðu að byrja að syngja útfararsálmana, komust þeir í vandræði, því hver stafkrókur í sálmabókinni var orðinn öfugur og umsnúinn í guðlast og formælingar. Þótti mönnum þetta kynlegt, sem von var, og stóðu ráðþrota. Varð heldur lítið úr líksöngnum. Ekki tók betra við, er presturinn skyldi mæla yfir líkinu. Jafnvel blessunarorðin umhverfðust í blótsyrði á vörum hans, svo hann hlaut að hætta. En þrátt fyrir undur þessi, mun líkið hafa hlotið leg þarna í vígðum reit og verið moldu ausið af presti, eins og til stóð. Ekki leið á löngu eftir jarðarför þessa þar til vart þótti verða við reimleika í nánd við Skarðskirkju. Kvað svo rammt að því, að ófært þótti að vera þar á ferli, er dimma tók. Sáu skyggnir menn loðna manninn, lemja kirkjuna að utan með fjölum úr kistu sinni.

Eftir jarðarför loðna mannsins villtust margir í Meðallandinu. Ein saga því til staðfestingar er af presti í Meðallandi sem bjó á Hnausum. Vetur einn var hann á heimleið um Meðallandið, seint um kvöld. Veðri var þannig farið, að dumbungur var og mjög skuggsýnt. Presturinn var þaulkunnugur á þessum slóðum og þótti dimman því ekkert saka. En þegar hann er kominn út á Kirkjumelabrautina, verður hann bráðlega ramm áttavilltur. Er hann nú að villast um sandinn lengi nætur. Heimilisfólk prests átti von á honum þetta kvöld. En þegar það fer að lengja eftir honum, setur það ljós út í glugga. Undir morgun komst prestur loks heim, magnvana og dasaður mjög eftir villuna á þessum kunnugu slóðum. Sagði hann fátt af ferðum sínum. En þegar hann var spurður, hví hann hefði ekki stefnt á ljósið heima, sem hann hlyti þó að hafa séð, andvarpaði hann og sagði: “Ljósin voru svo mörg, að ekki var fyrir nema fjandann sjálfan að vita, hvert væri hið rétta.”

Texti Lilja Magnúsdóttir. Lesari Gunnar Jónsson. (Ljósm. LM)

Vinir Vatnajökuls