Þjóðsaga: Katla matselja og Barði smali

Þykkvabæjarklaustur í Álftaveri lét Klængur biskup byggja 1169, og setti þar fyrstan ábóta Þorlák hinn helga, og var þar síðan lengi munkaklaustur og helgistaður mikill. Það er sagt, að einhverntíma byggi á klaustrinu ábóti, sem hélt bústýru þá sem Katla hét. Hún var forn í skapi og ill viðureignar. Mælt er að Katla hafi átt brók, sem hafði þá náttúru, að hver sem í hana fór þreyttist aldrei á hlaupum, og brúkaði Katla brókina í viðlögum. Mörgum stóð ógn af skaplyndi Kötlu, og jafnvel ábóta sjálfum þótti nóg um tröllskap kerlingar.

Sauðamann hélt ábóti, er Barði hét. Hann varð oft að líða harðar átölur af Kötlu, ef nokkuð vantaði af fénu. Á einu hausti bar svo til, að ábóti og Katla fóru í heimboð, en heim skyldu þau ríða um kvöldið, átti féð að vera til taks þegar Katla kæmi heim, því hún vildi sjálf mjólka það að vanda. Barði leitaði fjárins um daginn, en fann hvergi. Tók hann það því til bragðs, að fara í brók Kötlu, hljóp svo það sem af tók, og léttir ekki fyrr en hann finnur allt féð.

Þegar Katla kemur heim, verður hún þess vör, að Barði hafi brúkað brókina góðu; verður hún þá svo reið, að hún tekur Barða og kæfir hann í sýrukeri, sem stóð í karldyrum, og lét hann liggja þar. Vissi enginn hvað af Barða varð, en er á leið veturinn, og sýran tók að minnka, heyrðu menn Kötlu segja, þegar hún fór í kerið: “Senn bryddir á Barða.” En þegar hún sá að allt mundi komast upp, tók hún brók sína og hljóp út úr klaustrinu og stefndi í útnorður, upp til jökulsins, og steypti sér ofan í gjá í honum, sem síðan heitir Kötlugjá. Litlu þar eftir kom vatnsflóð úr jöklinum, sem stefndi á Álftaverið. Varð það síðan trú manna, að hlaupin væru að kenna fjölkynngi Kötlu.

Texti Lilja Magnúsdóttir. Lesari Gunnar Jónsson.(Ljósm. LM)

Vinir Vatnajökuls