Þjóðsaga: Huldukona í barnsnauð

Einu sinni kom huldumaður til Guðrúnar, ljósmóður á Kálfafelli, og bað hana að hjálpa konu sinni. Var það um næturtíma, eftir að Guðrún var sofnuð og lofaði hún því. Hleypti sér svo í nærfötin og fór með honum upp fyrir túnið. Komu þau þar að þokkalegu húsi og leiddi hann hana inn. Sýndist hús þetta eftir og áður vera steinn.

Þar lá kona á gólfi og gat ekki fætt. Guðrún hjálpaði henni og gekk þá allt greiðlega, og er þurfti að skilja á milli mælti Guðrún: “Nú gleymdi ég skærunum mínum á borðinu.”Huldumaðurinn kvaðst skyldi sækja þau. Fer hann síðan út og kom von bráðar aftur með skærin. Skildi hún þá á milli og gjörði þeim allt til góða sem hún gat. Síðan vildi hún fara heim en þau sögðu að henni lægi ekki á. Kváðust þau vera svo fátæk að þau gætu ekki goldið henni yfirsetukaup, en þau skyldu sjá til þess að kýr þeirra mjólkuðu betur en annarra í sumar.

Eftir litla stund sagði maðurinn að væri mál fyrir hana að fara heim til sín, því Þorsteinn maður hennar vildi kannske fara til sjávar snemma á morgun. Hún bjó sig þegar til heimferðar og fylgdi hann henni. Er hún lagðist út af hjá manni sínum, vaknaði hann og sagði: “Hvaða ósköp er þér kalt.”Sofnaði Guðrún síðan og um morguninn, er hún vaknaði, vissi hún varla hvort það var draumur eða ekki þetta, sem hún var að sýsla um nóttina, nema hvað hún hélt að það hefði verið í vöku fyrir sér, þegar hún fann skærin í vasa sínum, dálítið blóðug, sem áður áttu að liggja á borðinu, og af því sem maður hennar sagði við hana þegar hún fór að sofa um nóttina.

Um sumarið var næstum helmingi meiri mjólk hjá þeim en öðrum á Kálfafelli og þótti henni hulduhjónin efna vel loforð sitt.[1]

Þjóðsagnakver. 1950. Magnús Bjarnason safnaði. Hlaðbúð, Rv. s. 71-72. Lesari Gunnar Jónsson. (Ljósm. LM)

Vinir Vatnajökuls