Strand gullskipsins Het Wapen Van Amsterdam 1667

Já, ég man vel eftir þegar þetta stóra og glæsilega skip strandaði hérna á Skeiðarársandi haustið 1667, ekki langt frá Lómagnúpnum. Gullskipið var að koma frá eynni Jövu hlaðið gulli, perlum, silfri, demöntum, kopar, silki, kryddi og fleira góssi. Skipið var nýlegt og var eitt glæsilegasta skip Hollendinga á þessum tíma. Það var afspyrnu vont veður þegar þetta gerðist og fleiri skip hröktust út á Atlantshafið. Ég hef heyrt að eitt þeirra hafi brotnað í spón við Færeyjar.

Það hefur mikið verið talað um farm skipsins sem var afar verðmætur en minna um það að þetta er sennilega eitt mannskæðasta slys við Íslandsstrendur en talið er að minnst 140 menn hafi farist en 50-60 tókst að ganga alla leið austur í Öræfi. Nokkrir skipverjanna komust lifandi í land en gáfust upp á leiðinni til byggða enda afar þungt að ganga í blautum sandi og vaða jökulár. Skipverjar tóku með sér það sem þeir gátu borið og er sagt að þar á meðal hafi verið mikið af silki. Ganga sögur um að Öræfingar hafi í margar aldir sofið við silki rúmföt en þeir fengu silkið í stað reiðtygja þegar skipbrotsmennirnir fóru suður til Reykjavíkur til að komast í skip til Holllands.
Skipsskrokkurinn lá yfirgefinn en grófst smátt og smátt í sandinn og hvarf á innan við hundrað árum. Upp úr 1960 byrjuðu nokkrir ævintýramenn að leita að skipinu í sandinum. Það voru mikil umsvif hér og gaman að fylgjast með hvaða verkfæri þeir notuðu til að fara um sandinn og yfir jökulárnar, til dæmis var bíll sem hægt var að keyra á vatni og sjó sem kallaður var Vatnadrekinn. Það var leitað og grafið í mörg ár og 1983 töldu menn sig hafa fundið gullskipið. Hollenska stjórnin sendi menn á vettvang því þeir eiga jú skipið og allan farminn. Spennan var mikil í september 1983 þegar grafið var niður á skipið og vonbrigðin gífurleg þegar kom í ljós að það var togarinn Friedrich Albert sem lá í sandinum en ekki gullskipið. Það hvílir enn í sandinum og bíður nýrra ævintýramanna.

Það er kafli um Gullskipið og gullleitina á Eldsveitir.is

Texti Lilja Magnúsdóttir. Lesari Gunnar Jónsson. (Myndin er af líkani sem Karl Friðrik Ragnarsson í Vík í Mýrdal gerði. Myndina tók Karl.)

Vinir Vatnajökuls