Sæmundur Hólm; fyrsti listaskólagengni Íslendingurinn

Það voru hérna eftirminnilegir menn sem voru góðir listamenn. Kjarval var oft að mála hér í Fljótshverfinu og þegar hann gisti á Kirkjubæjarklaustri var stráklingur að snúast í kringum hann sem tók sér listamannsnafnið Erró og hefur starfað sem listmálari alla sína ævi, lengst af í París. En það voru fleiri listamenn sem tengdust þessari sveit og þar er eftirminnilegastur Sæmundur Hólm.
Sæmundur Magnússon ólst upp hjá foreldrum sínum í Hólmaseli í Meðallandi fyrir Skaftárelda og var orðinn djákni á Kirkjubæjarklaustri þegar hann komst með góðra manna hjálp til náms í Kaupmannahöfn og tók upp nafnið Sæmundur M. Hólm. Þar skráði hann sig í heimspeki en stundaði seinna nám í dráttlist og varð þar með fyrsti Íslendingurinn til að stunda nám við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Í Listaháskólanum var á sama tíma Bertel Thorvaldssen sem var Íslendingur í föðurætt en danskur í móðurætt og er nú frægur sem einn helsti myndhöggvari Dana. Sæmundur stundaði nám í Listaháskólanum í fjóra vetur en varð ekki eins mikið úr hæfileikunum og Bertel þrátt fyrir að hann og fengi sömu verðlaun og viðurkenningar. Sæmundur teiknaði myndir af mörgum samtímamönnum sem hafa varðveist. Hann teiknaði líka myndir af fyrirbærum í náttúrunni og seinna fór hann að gera landakort. Frægt er kort hans af eldsveitunum í Skaftafellssýslu fyrir og eftir Skaftárelda. Kortagerð Sæmundar er líka frumkvöðlastarf því það hafði enginn Íslendingur lagt fyrir sig áður.

Sæmundur skrifaði bók um Skaftárelda sem byggð var á bréfum frá fólki sem upplifði hörmungarnar. Hann skrifaði bókina á dönsku og var hún fljótlega þýdd yfir á þýsku. Hún var þó ekki þýdd á íslensku því áhrifamenn á Íslandi sögðu hana lélega. Mikið er til af ljóðum eftir Sæmund í handritum en lítið hefur verið gefið út. Þrátt fyrir mikla hæfileika vegnaði Sæmundi Hólm ekki vel. Sæmundur lærði til prests í Kaupmannahöfn og vildi fá brauð á Íslandi en gekk það mjög illa. Loks var hann ráðinn prestur að Helgafelli á Snæfellsnesi og þar starfaði hann til æviloka. Hann stóð í deilum við nágranna og yfirvöld alla tíð og var ævi hans ekki auðveld. Bjarni Thorarensen samdi um hann erfiljóð þar sem kemur fram að hann telur að menn hafi lagt Sæmund í einelti en aðrir segja að hann hafi verið slarksamur og þrætugjarn.

Lestu meira um Sæmund Hólm á Eldsveitir.is

Lilja Magnúsdóttir skrifaði söguna. Lesari er Gunnar Jónsson.

 

Vinir Vatnajokuls