Leiðvellir í Meðallandi: Sandbylurinn 1944

Bylur á oftast við um snjó en í sveitunum með Suðurströndinni getur orðið líka átt við um sandbyl. Það voru margir bæir sem lögðust í eyði við Suðurströndina þar sem sandurinn fauk yfir jarðir og drap allan gróður og þar með möguleika fólks til að búa á bæjunum. Skaðinn var mestur í Meðallandi þar sem yfir 20 bæir fóru í eyði. Eftir aldamótin 1900 var farið að huga að því að stöðva sandfokið með því að girða af ákveðin svæði. Besta plantan til að berjast við sandinn er melurinn.

Árangurinn af uppgræðslunni kom fljótt í ljós og ekki fóru fleiri bæir í eyði í allmörg ár. En vorið 1944 var síðasta stóra áfallið þegar kom ofsarok sem hélst í heila viku. Sandurinn fauk yfir byggðina. Háflóð var og sjórinn gekk langt inn á landið. Eftir að veðrinu slotaði kom í ljós að sandur hafði fokið í skafla við bæinn Leiðvöll, túnin voru undir sandi, djúpur brunnur hafði fyllst svo ekkert drykkjarvatn var að hafa. Féð hafði flest bjargast því það hafði verið í skjóli í hraununum fyrir norðan bæinn. Fólkið hafði lítið getað farið út í sjö daga og þegar lægði sá fjölskyldan sér ekki annað fært en að taka saman föggur sína og flytjast búferlum. Rústir bæjarins á Leiðvelli má sjá ef gengið er yfir túnið þar sem fjárhúsin standa núna. Bærinn var reisulegur á þessu fallega bæjarstæði, eins og sjá má af rústunum, en hann var algjörlega óbyggilegur næstu árin því sandurinn fauk um bæjarhlaðið í mörg ár.

Bærinn Feðgar, sem er næsti bær við Leiðvöll og stendur austar á bökkum Eldvatnsins, varð líka mjög illa úti í þessu veðri en fólkið þar þraukaði eitt ár í viðbót. Vorið 1945 tók það allt sitt hafurtask og fluttist burt og hefur bærinn verið í eyði síðan.
Það hefur verið bæði sorglegt og gleðilegt að fylgjast með Meðallandinu. Það var sorglegt að sjá hvernig gróður eyddist og bæirnir lögðust í eyði en líka ánægjulegt að sjá hvernig landgræðsla hefur skilað þeim árangri að sveitin er öll gróin í dag og hafin er stórfelld ræktun á korni þar sem áður var svartur foksandur.