Baráttan um heilsugæslustöðina

Heilsugæslustöðin á Kirkjubæjarklaustri er nú hluti af Heilsugæslu Suðurlands (Ljósm. LM)
Heilsugæslustöðin á Kirkjubæjarklaustri er nú hluti af Heilsugæslu Suðurlands (Ljósm. LM)

Átakaár í Skaftárhreppi. 

Í fámennu samfélagi sem ætlar sér að lifa af verður fólk að vera samstiga og fúst að taka að sér erfið verkefni og leggja allt undir þegar mikið er í húfi. Prestshjónin á Kirkjubæjarklaustri sr. Sigurjón Einarsson og Jóna Þorsteinsdóttir voru orðin heimavön þegar við Áslaug komum á Klaustur haustið 1971, Sigurjón var formaður skólanefndar og Jóna kennari við skólann. Sigurjón hafði beitt sér ötullega í sambandi við byggingu skólans og var yfirleitt vakinn og sofinn varðandi öll mikilvæg málefni, sem vörðuðu samfélagið í heild sinni og fljótur að bregðast við teldi hann ástæðu til. Ég leitaði mikið til þeirra hjóna um ýmislegt er varðaði skólann og um það sem var nýtt á döfinni hverju sinni. Þessi kynni urðu til þess að við fundum ákveðinn samhljóm með hugmyndum okkar og hvaða hlutverki við vildum gegna í samfélaginu fram yfir það sem við vorum ráðin til. Við vorum sammála um að okkur bæri að beita okkur í öllum þeim málum, sem væru mikilvæg fyrir samfélagið í samtíð og framtíð og til að auka slagkraftinn ættum við að taka höndum saman með fólkinu í samfélaginu þar sem það ætti við

Jóna Þorsteinsdóttir

Jóna Þorsteinsdóttir vann ötullega að bættri heilbrigðisþjónustu í samfélaginu og var formaður hönnunarnefndar heilsugæslustððvarinnar.

Að afloknum alþingiskosningum 1971 tók við völdum ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar sem sat til ársins 1974. Í þessari ríkisstjórn sátu sjö ráðherrar og varð Magnús Kjartansson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og iðnaðarráðherra fyrir Alþýðubandalagið. Hann hóf strax vinnu við að endurskipuleggja heilsugæsluna á landsbyggðinni, en skipulag hennar hafði ekki tekið breytingum í langan tíma þótt hlutverk hennar hefðu breyst mikið. Hugmyndafræði ráðuneytisins gekk út á að sameina læknishéruð í dreifðum byggðum og byggja heilsugæslustöðvar þar sem störfuðu minnst tveir læknar, bæði til að minnka álag á starfandi lækna og skapa faglegra umhverfi.

Til þess að vinna sérstaklega að þessari áætlun réð ráðherra sér aðstoðarmann, samflokkskonu sína Öddu Báru Sigfúsdóttur, sem fékk það hlutverk að fylgja eftir þessum hugmyndum og hrinda þeim í framkvæmd í samvinnu við viðkomandi fagaðila, sérstaklega landlækni og samtök lækna. Adda Bára var bráðgreind kona og fylgin sér og þegar hún hafði tekið kúrsinn þá var ekki vandalaust að fá hana til að sveigja af leið. En hvað um það, þegar fyrstu tillögur ráðuneytisins birtust á prenti seinnipart árs 1972[1], gerðu þær ráð fyrir að Kirkjubæjarlæknishérað yrði lagt niður og sameinað heilsugæslunni í Vík í Mýrdal þar sem byggð yrði tveggja lækna heilsugæslustöð. Þetta hefði þýtt að föst seta læknis á Kirkjubæjarklaustri yrði aflögð.

Þegar við sáum þessar hugmyndir leist okkur ekki á blikuna og ákváðum því strax að safna liði til að reyna að koma í veg fyrir að þessar fyrirætlanir næðu fram að ganga. Til að skýra viðbrögðin verður að geta þess að á þessum árum tók það minnst klukkutíma til hálfan annan tíma að fara á milli Klausturs og Víkur að sumarlagi og á veturna var mjög oft svo þungfært að ferðin gat tekið marga klukkutíma og stundum var alls ekki fært. Ekki má heldur gleyma sandstormunum, sem voru tíðir og lokuðu veginum jafnvel dögum saman. Sem skólastjóri lagði ég áherslu á að á Klaustri væru yfir 100 nemendur í skóla og nauðsynlegt væri að hafa gott aðgengi að lækni á meðan skóli starfaði. Annað sem skipti máli var að ferðamennska færi ört vaxandi á svæðinu og myndi stóraukast með hækkandi slysatíðni þegar fyrirhugaðri tengingu hringvegarins lyki árið 1974. Og síðast en ekki síst þá var bent á að íbúar austan Sands gætu engan veginn sætt sig við annars flokks læknisþjónustu, eða læknisþjónustu sem væri komin undir náð og miskunn veðurguðanna stóran hluta ársins.

Sýslunefndin

Á myndinni eru Ólafur Jón, Loftur og Sr. Sigurjón en þeir komu við sögu þegar barist var fyrir Heilsugæslustöð á Kirkjubæjarklaustri.

Aftari röð f.v.: Runólfur Sæmundsson Vík, Valur Oddsteinsson Úthlíð, Loftur Runólfsson Strönd, Eyjólfur Sigurjónsson Pétursey, Ólafur Jón Jónsson Teygingalæk.

Fremri röð: Einar Oddsson Vík, Halla Kjartansdótti Vík, Sr. Sigurjón Einarsson, Júlíus Jónsson Norður-Hjáleigu.

Myndin gæti verið tekin á sýslunefndarfundi. Loftur Runólfsson átti þessa mynd. 

 

Ákveðið var að heyja harða baráttu til að koma í veg fyrir að læknishéraðið yrði lagt niður, helstu menn sem urðu virkir í baráttunni auk okkar Sigurjóns voru Ólafur J. Jónsson Teygingalæk, Siggeir Björnsson Holti, Steingrímur Lárusson Hörgslandskoti, Loftur Runólfsson á Strönd og fleiri. Það flækti málin framan af, að oddviti Kirkjubæjarhrepps, Jón Helgason varaþingmaður Suðurlands fyrir Framsóknarflokkinn, var stuðningsmaður tveggja lækna heilsugæslustöðvar í Vík í Mýrdal, en það breyttist að vísu síðar.

Svo hófst baráttan.

Sigurjón og Magnús Kjartansson þekktust vel frá fyrri tíð og voru pólitískir samherjar og því var fyrst brugðið á það ráð að senda Sigurjón á fund ráðherra. Fyrsta sendiferðin bar ekki árangur, rökin fyrir faglegu samstarfi lækna á tveggja lækna stöð stæðu óhagganleg og vigtuðu þyngra heldur en rök okkar og því væri málið útrætt af hálfu ráðuneytisins. Við sættum okkur ekki við þetta, héldum áfram að nauða, sendum bréf, hringdum og fórum margar ferðir til að hitta bæði ráðherra og Öddu Báru, þangað til þau urðu loks svo leið á okkur að ráðherra kvað upp úr með það, að ef við gætum útvegað lækni þá fengjum við heilsugæslustöð á Kirkjubæjarklaustur með okkar eigin lækni. Ráðherra og hans lið var sannfært um að enginn læknir gæfi kost á sér til starfa á eins læknis heilsugæslustöð á Kirkjubæjarklaustri.

Með þetta í farteskinu héldum við Sigurjón heim, vissum að þetta var lokasvar og að boltinn væri nú hjá okkur. Heimkomnir gerðum við okkar fólki grein fyrir hvernig mál stóðu og að skilaboðin til okkar voru skýr:

„Þið verðið að finna lækni.“[2]

Hér verður að geta þess, að nú var Jón Helgason kominn í lið með okkur að berjast fyrir heilsugæslustöð á Kirkjubæjarklaustri.

Svo liðu dagar og nætur og ekkert gerðist, okkur datt ekkert í hug, vonleysið óx með degi hverjum. Við Sigurjón vissum að ef við findum ekki lækni áður en frumvarpið um skipan heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni yrði samþykkt á vorþingi myndum við missa heilsugæsluna til Víkur. Og okkur yrði vafalítið um kennt.

Dag nokkurn eftir hádegi, rambaði ég enn einu sinni upp í prestsbústað að ræða málin, Sigurjón tók á móti mér á stigapallinum og ég sá að honum var mikið niðri fyrir. Um leið og ég lokaði útidyrahurðinni talaði hann til mín og brýndi röddina:

„Skólastjóri minn, þú varst einu sinni í læknisfræði og þekkir einhverja nýútskrifaða lækna, sem gætu hugsað sér að koma og bjarga læknishéraðinu með okkur.“

Af einhverjum ástæðum höfðu mér aldrei dottið í hug gömlu skólafélagarnir úr læknisfræðinni. Um leið og Sigurjón nefndi mína gömlu félaga kom mér til hugar maður sem ég hefði betri aðgang að en öðrum. Ég snerist á hæli í forstofunni fór beint heim, hringdi á símstöðina og pantaði símtal við frænda minn og nýútskrifaðan lækni, Ingþór Friðriksson.

Ég sagði Ingþóri að nú væri mikið í húfi, við værum að berjast fyrir því að halda lækni á Kirkjubæjarklaustri og að byggð yrði Heilsugæslustöð á staðnum og spurði hvort hann væri ekki til með að ráða sig austur til okkar í tvö til þrjú ár. Þannig myndi hann bjarga læknishéraðinu til framtíðar.

Ingþór áttaði sig strax um hvað málið snerist og bað um umhugsunarfrest í þrjú korter. Að hálftíma liðnum hringdi síminn, Ingþór var á hinum endanum og sagði stutt og laggott: „Ég kem.“

Ég dró andann djúpt nokkrum sinnum til að leyna geðshræringunni.

Ég vildi binda alla lausa enda strax og sagði frænda að hitta okkur á fundi á Hótel Sögu kl. 22.00 það sama kvöld. Við kvöddumst, ég hringdi á Hótel Sögu fékk þar herbergi og stökk síðan til Sigurjóns að færa honum tíðindin og að nú væri ekki til setunnar boðið.

Hann hringdi óðar í nokkra lykilmenn í héraði og boðaði þá strax á Klaustur, búna til suðurferðar, til að ganga frá samningum við verðandi heilsugæslulækni á Kirkjubæjarklaustri. Ég man að í ferðinni voru auk okkar Sigurjóns, Jón Helgason, Siggeir Björnsson, Bergur Helgason oddviti Kálfafelli og einhverjir fleiri. Við lögðum á stað á tveim bílum um kl. 17.00 í suðaustan hávaðaroki og rigningu, á Mýrdalssandi mætti okkur dynjandi sandfok, sem hreinsaði lakkið af mínum bíl, en Jón Helgason slapp betur. Ekki þarf að orðlengja það, að á réttum tíma vorum við mættir á hótelið og Ingþór líka. Þar var á stuttum fundi gengið frá dálitlu staðfestingarbréfi til ráðherra, sem Ingþór og við einhverjir undirrituðum og loks var ráðningarsamningurinn handsalaður til staðfestu á því að Ingþór væri ráðinn að Kirkjubæjarklaustri frá miðju ári 1973. Fundi var slitið, herbergið borgað, lykli skilað og við austanmenn ákváðum að hittast í heilbrigðisráðuneytinu morguninn eftir til að tilkynna ráðherra niðurstöðuna og ganga eftir efndum á hans loforði.

Morguninn eftir var gengið fyrir ráðherra, honum afhent bréfið og greint munnlega frá hverju við höfðum áorkað.

„Þið hafið leyst málið og fáið heilsugæslustöð,“ sagði ráðherrann og við það stóð hann.

Eftir samþykkt laga um heilbrigðisþjónustu veturinn 1973 var skipuð framkvæmdanefnd af hálfu heimamanna og í henni sátu Jón Hjartarson formaður, Jón Helgason oddviti, ritari og Loftur Runólfsson oddviti á Strönd í Meðallandi.

Ingþór kom snemma sumars árið 1973.[3]

Byggingarsaga heilsugæslustöðvarinnar er rakin í ítarlegri grein Hauks Valdimarssonar, fyrrverandi heilsugæslulæknis á Kirkjubæjarklaustri, í 9. bindi Dynskóga bls. 335–341.

Heilsugæslustöðin á Kirkjubæjarklaustri var vígð við hátíðlega athöfn 24. nóvember 1979 að viðstöddum heilbrigðisráðherra Magnúsi H. Magnússyni, þingmönnum og fjölda heimafólks. Það vakti athygli að hvorki landlæknir né fulltrúi hans mættu til athafnarinnar, vegna andstöðu embættisins við byggingu heilsugæslustöðvarinnar. Afstaða landlæknis segir nokkuð til um við hvað var að etja í baráttunni fyrir stöðinni og hvað málið stóð tæpt.

Óhætt er að fullyrða að heilsugæslustöðin var mikið heillaspor fyrir samfélagið og lagði grunninn að íbúaþróun og fjölbreyttri heilbrigðisþjónustu og ekki hvað síst öldrunarþjónustunni, sem nú er rekin með miklum sóma á Kirkjubæjarklaustri.

Ferðin til Reykjavíkur er farin haustið 1972, þegar frumvarpið um skipan heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni var komið fram á Alþingi og þá fengum við loforð ráðherra fyrir Heilsugæslustöðinni á Klaustri. Á Víkurfundinum 1973 eru mótmæli okkar austanmanna áréttuð af mikilli alvöru, en loforð ráðherra lá þá fyrir að vísu í andstöðu við ráðuneytisstjóra og landlækni.Að sjálfsögðu eru ekki til skriflegar heimildir um þennan þátt baráttunnar því þótti mér tilhlýðilegt að halda þessum kafla í sögu Heilsugæslunnar á Kirkjubæjarklaustri til haga.

    Jón Hjartarson

[1] Frumvarp ráðherra um skipan heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni var lagt fram snemma á haustþingi 1972 og samþykkt sem lög frá Alþingi á vorþingi 1973 með áorðnum breytingum.

[2] Siggeir Björnsson, hreppsstjóri Holti á Síðu.

[3] Í grein Hauks er missagt um dvöl Ingþórs á Kirkjubæjarklaustri og leiðréttist hér með: Ingþór kom til starfa á Kirkjubæjarklaustri í maí/júni 1973 og starfaði samfleytt á Kirkjubæjarklaustri fram á fyrrihluta árs 1975.

Ljósmyndirnar af Jónu og Jóni tók Hermann Ottósson sem var kennari við Kirkjubæjarskóla á Síðu.

Myndina af Kirkjubæjarklaustri tók Einar Bjarnason. 

Jón Hjartarson

Jón Hjartarson skólastjóri Kirkjubæjarskóla á Síðu frá 1971 til 1990.

Kirkjubæjarklaustur