Reglugerð um val á íþróttamanni ársins

Reglugerð um val á íþróttamanni ársins í Skaftárhreppi

1. grein

Íþrótta- og æskulýðsnefnd gengst ár hvert fyrir útnefningu á Íþróttamanni ársins í Skaftárhreppi.

2. grein

Íþrótta- og æskulýðsnefnd sér um undirbúning að vali íþróttamanns ársins.

Tilnefningar skulu koma frá öllum ungmennafélögum í Skaftárhreppi og einnig frá öðrum félögum innan vébanda ÍSÍ í Skaftárhreppi. Einnig skal auglýsa eftir tilnefningum. Hvert félag skal tilnefna einn íþróttamann og þarf tilnefning að berast fyrir 15. desember ár hvert. Með tilnefningu skal fylgja greinargerð um árangur og rökstuðningur fyrir tilnefningu viðkomandi.

Skilyrði er að viðkomandi eigi lögheimili í Skaftárhreppi og sé a.m.k. 16 ára á árinu.

Nauðsynlegt er fyrir þá sem sjá um tilnefningar að heyra í þeim sem þeir ætla að tilnefna til að fá alla árangra og hvar einstaklingurinn þjálfi nú.

3. grein

Í lok desember veitir Íþrótta- og æskulýðsnefnd þeim einstaklingi, sem valinn er íþróttamaður ársins í Skaftárhreppi fyrir liðið ár, viðurkenningu í samræmi við reglugerð þessa.

Á viðurkenninguna skal ritað nafn hins útnefnda íþróttamanns, viðeigandi ártal og skal verðlaunagripurinn vera í vörslu hans það ár sem hann hefur verið valinn.

Íþróttamanni ársins er jafnframt veitt viðurkenning til eignar.

4. grein

Faglegt mat á útnefningu skal vera í höndum Íþrótta- og æskulýðsnefndar.

5. grein

Viðurkenning skal einnig veitt fyrir landliðssæti og, ef tilefni er til, þeim aðila sem hefur unnið framúrskarandi vel að íþrótta- og æskulýðsmálum í Skaftárhreppi það árið.

6. grein

Afhending viðurkenninganna skal fara fram með þeirri viðhöfn sem Íþrótta- og æskulýðsnefnd ákveður hverju sinni þar sem allir tilnefndir eru boðaðir.