Viltu verða landvörður?

Landvörður stýrir fræðslugöngu við Ströngukvísl  (Ljósm. VJP)
Landvörður stýrir fræðslugöngu við Ströngukvísl (Ljósm. VJP)

Viltu verða landvörður

Möguleikar á skemmtilegu sumarstarfi í heimabyggð – styrkur til að ná sér í landvarðarréttindi.

Á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, sem stýrt er frá Kirkjubæjarklaustri, starfa að jafnaði um 15 landverðir, í lengri eða skemmri tíma yfir sumarið. Um er að ræða frábært sumarstarf fyrir fólk með áhuga á útivist, náttúru, sögu og náttúruvernd.

Forsenda þess að vera ráðin til starfa er að vera orðin 18 ára og hafa gilt ökuskírteini. Þau sem hafa lokið landvarðanámskeiði og þannig öðlast rétt til að starfa sem landverðir ganga fyrir við ráðningar í störf landvarða. Undanfarin ár hefur framboð á réttindalandvörðum verið slíkt að nánast ómögulegt er að komast í starf nema hafa lokið námskeiði.

Námskeiðið er haldið í febrúar ár hvert og spannar um 110 kennslustundir sem raðast niður á kvöld og helgar í 4 vikur. Það er að mestu í fjarkennslu, en gert er ráð fyrir einni staðlotu, þar sem nemendur æfa sig í fræðslu, náttúrutúlkun o.fl. sem starfinu fylgir. Kostnaður við námskeiðið er í kringum 150.000 með öllu og er styrkhæft hjá mörgum starfsmenntunarsjóðum.

Nú hefur fyrirtæki í Skaftárhreppi, Digriklettur ehf, boðist til að greiða námskeiðsgjöld fyrir tvö ungmenni úr heimabyggð, sem langar til að ná sér í landvarðaréttindi. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Fanney (fanney@vjp.is ) eða Jónu Björk (jonabjork@vjp.is) til að fá frekari upplýsingar.

Vatnajökulsþjóðgarður vill nota tækifærið til að koma á framfæri einlægu þakklæti til Digrakletts ehf fyrir þetta framtak í þágu náttúrunnar og samfélagsins. Við tökum því fagnandi að fá tækifæri til að fá fleira heimafólk í vinnu og gleðjumst yfir fjölbreyttari atvinnutækifærum fyrir unga fólkið okkar.

Barist við utanvegaakstur

 

Fræðsluganga við Ströngukvísl