Margrét ráðin hjúkrunarforstjóri á Klausturhólum

Matthildur Pálsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir  (Ljósm. Hasse)
Matthildur Pálsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir (Ljósm. Hasse)

Margrét Guðmundsdóttir tekur við starfi hjúkrunarforstjóra á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri 1. mars 2022. Margrét er hjúkrunarfræðingur og hefur starfað á Klausturhólum frá því í setpember 2016. Margrét lærði hjúkrun við  Högskolan í Borås í Svíþjóð þar sem hún bjó í mörg ár eða þar til hún ákvað að koma aftur til Íslands og heim í sveitina sína því hún ólst upp í Eystra-Hrauni í Landbroti. 

Matthildur Pálsdóttir lætur af starfi hjúkrunarforstjóra en hún hefur stýrt Klausturhólum frá því 1. júní 2016 2016. Matthildur var íbúum Skaftárhrepps að góðu kunn þegar hún gerðist hjúkrunarforstjóri en hún var hjúkrunarfræðingur á heilsugæslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri í mörg ár. Sveitarstjórn Skaftárhrepps þakkar Matthildi samstarfið og þá ekki síst fyrir óeigingjarnt starf á erfiðum tímum og óskar henni velfarnaðar. 

Starfið á Klausturhólum hefur verið erfitt síðustu tvö ár vegna covid19 og hafa þær Matthildur og Margrét unnið þar saman sem einn maður. Vel gekk að verja vistmenn fyrir pestinni en núna í febrúar smokraði veiran sér inn fyrir þröskuldinn og náði flestum vistmönnunum og mjög mörgum starfsmönnum. Það þurfti útsjónarsemi forstöðumanns og starfsmanna, svo og aðstoð fólks utan hjúkrunarheimilisins, til að takast á við þessar krefjandi aðstæður en allt fór vel. Vistmenn veiktust ekki mikið og hafa flestir náð sér. Nokkrir starfsmenn veiktust og eru að koma til vinnu hver af öðrum.

 

 

 

Matthildur og Margrét

Matthildur afhendir Margréti lyklana

Matthildur og Margrét hafa unnið saman á Klausturhólum. Hér afhendir Matthildur Margréti lyklana. Myndina tók Hasse, eiginmaður Margrétar, í kapellu Klausturhóla.