Gvendarkjör á Klaustri

Verslunin Gvendarkjör opnaði á Kirkjubæjarklaustri laugardaginn 12. júní 2021. Margir gáfu sér tíma til að koma í búðina þegar opnaði enda menn orðnir langeygir eftir matvöruverslun frá því að Krónan lokaði í byrjun ársins. Eru íbúar í Skaftárhreppi ánægðir með að geta aftur verslað í heimabyggð, hitt náungann og spjallað við mjólkurkælinn eða hlaupið eftir því sem vantar hverju sinni.

Það eru þau Guðmundur Vignir Steinsson og Auður Eyþórsdóttir sem reka verslunina en þau reka einnig Systrakaffi og Skaftárskála. Þó ekki væri formleg verslun í vetur leystu þau hjónin, Guðmundur Vignir og Auður, það með litlu horni í Skaftárskála sem kallað var Gvendarhorn þar sem hægt var að fá helstu nauðsynjar. Markmiðið er að reka matvöruverslunina yfir sumarið og vonandi verður rekstargrundvöllur fyrir heilsársverslun, ef ekki, verða seldar nauðsynjar í Skaftárskála yfir háveturinn.

Opnunartími verslunarinnar í júní 2021 verður frá 10:00 - 18:00 alla virka daga og 10:00 - 16:00 um helgar. Opnunartíminn verður meiri í júlí og verður auglýstur síðar.

Auður og Guðmundur Vignir voru ánægð með móttökur sveitunganna á opnuninni

Herdís Huld var mætt hress og kát á mánudagsmorgni