Skaftßrhreppur og KirkjubŠjarklaustur

Skaftárhreppur varð til árið 1990 við sameiningu fimm hreppa; Hörgslands-, Kirkjubæjar-, Leiðvalla-, Skaftártungu- og Álftavershrepps. Hann er austurhluti Vestur-Skaftafellssýslu og afmarkast af Blautukvísl á Mýrdalssandi í vestri og Sandgígjukvísl á Skeiðarársandi í austri. Hreppurinn dregur nafn sitt af ánni Skaftá, sem á aðalupptök sín undir Skaftárjökli í vestanverðum Vatnajökli og rennur til sjávar í Veiðiósi og Kúðaósi, en lengd árinnar frá upptökum til ósa er um 115 km.

Í dag eru íbúar Skaftárhrepps um 450 talsins og hefur aðeins farið fækkandi síðustu ár. Aðalatvinnuvegir svæðisins eru landbúnaður og ferðaþjónusta, en fiskeldi skipar einnig stóran sess.  Eini þéttbýliskjarninn í hreppnum er Kirkjubæjarklaustur, eða “Klaustur” eins og staðurinn er gjarnan nefndur í daglegu tali. Á Klaustri er stunduð verslun, margvísleg þjónusta og iðnaður.

Grunnskóli Skaftárhrepps, Kirkjubæjarskóli á Síðu, er á Kirkjubæjarklaustri en þar geta börn stundað nám allan grunnskólann. Kirkjubæjarskóli var settur í fyrsta sinn þann 4. október 1971.  Kirkjubæjarskóli var reistur sem samvinnuverkefni þeirra hreppa sem síðar sameinuðust í Skaftárhrepp.  Leikskólinn Kæribær er á Klaustri en þar læra yngstu börnin að taka sín fyrstu skref út í lífið.  Á Klaustri er einnig hjúkrunar- og dvalarheimilið Klausturhólar.

Klaustur er við þjóðveg 1, hringveginn, miðsvæðis í hreppnum. Þaðan liggja leiðir til allra átta;
Lakavegur liggur inn á hálendið, skammt vestan Klausturs. Landbrotsvegur/Meðallandsvegur er hringleið, frá Skaftárbrú, um sunnanverðan hreppinn. Með því að fara Fjallabaksleiðir syðri og nyrðri má komast á sunnanvert hálendi Íslands. Liggur leiðin þá um Skaftártunguveg, sem ekið er inn á af hringveginum 25 km vestan Klausturs. Álftaversvegur er hringleið um Álftaver við Mýrdalssand.

Kirkjubæjarklaustur á Síðu, sem hét til forna “Kirkjubær”, á sér langa og merka sögu. Talið er að fyrir landnám norrænna víkinga hafi Papar haft búsetu á Kirkjubæjarklaustri og sagan segir að þar hafi ávallt búið kristnir menn og heiðnir menn ekki mátt þar búa. Þar var löngum stórbýli en landnámsmaðurinn Ketill hinn fíflski reisti þar bú. Eftir Ketil vildi Hildir Eysteinsson úr Meðallandi færa bú sitt í Kirkjubæ en hann var maður heiðinn. Er hann kom að túngarði féll hann örendur niður og liggur í Hildishaugi, sem er Klettahóll skammt austan Klausturs. Árið 1186 var stofnað nunnuklaustur af Benediktsreglur í Kirkjubæ. Klausturhald hélst nær óslitið fram til siðaskipta árið 1550. Mörg örnefni á staðnum og þjóðsögur tengjast klausturlífinu og kirkjusögunni.

Landslag og gróðurfar í Skaftárhreppi er mjög fjölbreytilegt og andstæður náttúrunnar mjög miklar. Veðursæld er mikil á íslenskan mælikvarða, mildir vetur og hlý og sólrík sumur, sem gerir svæðið ma. að einu hinna áhugaverðustu fyrir íslenska og erlenda ferðamenn.

Miklar náttúruhamfarir af völdum eldgosa og jökulhlaupa hafa í gegnum aldirnar mótað landslag og mannlíf héraðsins. Árið 1783 rann mikið hraunflóð úr Lakagígum á Síðumannaafrétti, þekkt sem “Skaftáreldar”. Er það talið eitt hið mesta hraunflóð sem runnið hefur á Jörðinni í einu gosi. Hraunstraumarnir fylltu gljúfur Skaftár og Hverfisfljóts og runnu þar til byggða í tveimur hraunfljótum og
breiddust svo út yfir láglendið. Hraunið tók af marga bæi og eyddi stórum landsvæðum í byggðinni. Öskufall varð mikið og afleiðingar eldgossins urðu skelfilegar fyrir íbúa héraðsins og landsmenn alla. Þetta tímabil hefur verið nefnt “Móðuharðindin”.
Í Mýrdalsjökli er eldstöðin Katla sem margsinnis hefur gosið frá því sögur hófust, síðast árið 1918. Mikil jökulhlaup hafa fallið niður Mýrdalssand í kjölfar Kötlugosa og ógnað byggðum í nágrenninu. Þá hafa einnig orðið mikil eldgos á sögulegum tíma í Eldgjá í Skaftártungu og í Öræfajökli, auk eldgosa í smærri eldstöðvum.