Sorporkust÷­

Sorporkustöð
Klausturvegi 4
880 KIRKJUBÆJARKLAUSTUR

Sími: 487 4876

26. mars 2003 tók umhverfisráðherra formlega í notkun nýja sorporkustöð á Kirkjubæjarklaustri. Tilurð sorporkubrennslu á Kirkjubæjarklaustri á sér nokkurn  
aðdraganda. Eftir miklar vangaveltur um heppilegustu lausnir á afsetningu sorps var endanlega ákveðið árið 1998 að gera tilraun með háhitabrennslu sorps, sem jafnframt myndi leysa af hólmi svartolíubrennslu, sem um áratugaskeið hafði verið notuð til upphitunar á skólahúsnæði staðarins.
Keypt var sorporkuvél frá fyrirtækinu Hoval í Lichtenstein, sem tekin var í notkun árið 1999 og var henni komið fyrir í gám á skólalóðinni. Ekki var talið ráðlegt að ráðast í uppbyggingu varanlegs húsnæðis fyrir starfsemina á þeim tíma, menn vildu sjá starfsemina virka áður en í slíkt væri ráðist. Á ýmsu gekk í glímu við alls kyns barnasjúkdóma og efasemdaraddir. Reynslan herti menn þó í að halda áfram og árið 2001 var hafist handa við að skipta um jarðveg undir væntanleg mannvirki á lóðinni. Hús var reist sumarið 2002 og ný vél keypt síðastliðið haust.

Með tilkomu nýrrar og afkastameiri vélar, sem eins og eldri vélin kemur frá Hoval í Lichtenstein, er gert ráð fyrir að hægt verði að eyða öllu brennanlegu sorpi, sem til fellur í sveitarfélaginu og e.t.v. eitthvað umfram það. Nýverið er farið að sækja brennanlegt sorp úr öllu sveitarfélaginu. Sorpið er sótt heim að dyrum og ekki er gert ráð fyrir að reka nema einn hefðbundinn gámavöll, sem staðsettur er á Kirkjubæjarklaustri.
Ekki er tekið við lífrænu sorpi úr dreifbýlinu og söfnunartíðni er þar lág, safnað er einu sinni á 4 vikna fresti. Þessi lága söfnunartíðni ræðst af því hversu byggðin er dreifð og vegalengdir miklar. Í þéttbýlinu er sorp sótt vikulega og tekið við lífrænu sorpi hjá þeim, sem ekki jarðgera sjálfir, og það jarðgert miðlægt.

Afköst gömlu vélarinnar eru 500 kg af sorpi á dag og orkuframleiðsla 195 KW.
Uppgefin afköst nýju vélarinnar eru 1200 - 1400 kg af sorpi á dag og orkuframleiðsla 440 KW. Samanlagt eru uppgefin afköst beggja vélanna því rúmlega 0,6 MW
Nýja vélin hitar vatn sem er í 40 þúsund lítra miðlunargeymi. Frá geyminum er vatnið síðan leitt inn á hitakerfi skóla og sundlaugar. Þegar orkuvélin er ekki í gangi og hitastig í miðlunargeyminum fellur niður fyrir ákveðið mark tekur rafmagnstúpa við en gamli olíuketillinn er jafnframt til staðar ef á þarf að halda.

Búið er að steypa grunn og gólfplötu fyrir íþróttahús við hliðina á sorporkustöðvarhúsinu og er fyrirhugað að nýta varmann frá sorporkustöðinni til upphitunar á því húsi sem fyrirhugað er að reisa síðar á þessu ári. Annars vegar verður um að ræða venjulega vatnsofnahitun , en jafnframt er fyrirhugað að setja upp loftvarmaskipti, sem flytja mun varmann sem myndast frá vélinni yfir í íþróttahúsið. Þegar vélin er í notkun er hitastig upp við loft ofan við vélina iðulega milli 50 og 60 gráður. Með loftvarmaskiptinum er fyrirhugað að nýta þennan hita, sem við núverandi aðstæður glatast.

Við uppsetningu á þessum nýja ofni hefur það verið haft að leiðarljósi að gera þessa stöð að fullkominni endurnýtingarstöð. Það er ekki einungis förgun úrgangs sem hér fer fram heldur er öll orka nýtt sem fellur til við brennsluna.

Sorporkustöðinni var lokað 12. desember 2012 og þar með var sorpbrennslu hætt í Skaftárhreppi.

Gjaldskrá vegna sorphirðu í Skaftárhreppi getur þú nálgast hérna.

Umsjón með sorphirðu í Skaftárhreppi:
Íslenska Gámafélagið.