Stígvélafótbolti 8. júlí 2006

Þegar leikur hófst þá var þetta auðvitað haft eins og fyrr á árum þ.e.a.s. Klaustur á móti rest. Hópur sveitastráka var frekar þunnskipaður og því fór fljótlega að draga af þeim og skoruðu Klausturstrákarnir því nokkur heppnismörk. Þegar staðan var 10-3, Klausturstrákum í vil var ákveðið að taka leikhlé og gefa liðunum tíma til þess að ráða ráðum sínum. Að leikhléi loknu fór einn leikmanna sveitastráka fram á það að leikurinn yrði "núllaður" þar sem markatala mótherjans fyllti orðið tuginn. Eitthvað könnuðust menn nú ekki við þessa leikfléttu frá gamalli tíð en létu gott heita og seinni hálfleikur hófst því í stöðunni 0-0. Þegar leikur hófst að nýju kom fljótlega í ljós að eitthvað hafa menn nú lært í gegnum tíðina því að á meðan þessu fór fram hafði sveitastrákum tekist að kaupa einn leikmanna Klausturstráka yfir í sitt lið. Ekki fer sögum af kaupverði eða launakjörum þessa leikmanns en þeir hafa eflaust talið sig eiga gamla hönk upp í bakið á honum þar sem þeir kynntu hann fyrir heimasætunni á einum bænum fyrir næstum 20 árum. Við þetta jafnaðist leikurinn töluvert og eftir mikið fjör og mörg glæsileg tilþrif þá var leikurinn flautaður af í stöðunni 3-3 og allir gengu sáttir af velli.