360. fundur sveitarstjórnar, 11. júní 2013

Fundargerð.

Sveitarstjórn Skaftárhrepps fundaði þriðjudaginn 11. júní 2013. 
Fundur hefst kl. 1100 á Kirkjubæjarstofu.

Þetta er 360. fundur sveitarstjórnar, 7. fundur ársins 2013.

Fundargerð er tölvuskráð af sveitarstjóra og er 5 blaðsíður.

 

Guðmundur Ingi oddviti, býður fundarmenn velkomna.

Mættir undirritaðir sveitarstjórnarmenn ásamt Eygló Kristjánsdóttur, sveitarstjóra. 

Þórunn Júlíusdóttir boðaði forföll, í hennar stað mætir Bjarki Guðnason varamaður L lista.

 

Oddviti óskar eftir breytingu á dagskrá að við málefnaskrá bætist:
II. fundargerðir til samþykktar
2. fundargerð menningarmálanefndar, 31.maí 2013.

Dagskrárbreyting samþykkt.

Sveitarstjóri og oddviti greina frá gangi mála frá síðasta fundi.
Sveitarstjóri greinir frá að drög að sumarleyfum starfsmanna á skrifstofu hafa verið lögð fram.  Skrifstofa Skaftárhrepps verður lokuð í eina viku, 29. júlí – 2. ágúst.  Sveitarstjóri verður í leyfi 18. – 21. júní, tvær vikur í júlí og tvær vikur í ágúst.

 

Dagskrá.

 

I.                   Málefni til umfjöllunar/afgreiðslu

1.    Kyndingarmál íþróttamannvirkja og skólahúsnæðis.
Í apríl síðastliðnum fékk sveitarstjórn skýrslu unna af Þór Tómassyni efnaverkfræðingi hjá Mannvit um valkosti til upphitunar fyrir sundlaug, íþróttahús og skóla á Kirkjubæjarklaustri og lausnir til meðhöndlunar á sorpi frá svæðinu.  Helstu niðurstöður þeirrar skýrslu eru að kostir sem uppfylla kröfur reglugerðar nr. 739/2003, um brennslu úrgangs eru ekki taldir raunhæfir.  Mögulegt er að uppfylla hluta reglugerðarinnar en ekki allar kröfur um mælingar og skráningar.  Rekstrarkostnaður við brennslu er verulegur og mun meiri en við eldri brennslu.  Árlegur kostnaður við upphitun og förgun sorps var metin sambærilegur og við það að aka öllu sorpi til Reykjavíkur og hita sundlaug og aðra aðstöðu með rafmagni og olíu.
Í ljósi þessarar niðurstöðu telur sveitarstjórn ekki forsendur fyrir áframhaldandi  sorpbrennslu til upphitunar íþróttamannvirkja og skólahúsnæðis.

Í sömu skýrslu var lagt til að valkostir til upphitunar sem byggðu á varmadælum yrðu skoðaðir nánar.  Í framhaldi af því var auglýst eftir tilboðum í varmadælukerfi til upphitunar á íþróttamannvirkjum og skólahúsnæði.   
Til forskoðunar tilboða var aðstoð  fengin frá Oddi Björnssyni vélaverkfræðingi hjá Verkís.    Eftir yfirferð tilboða voru tvö tilboð sem helst komu til greina með tilliti til verðs og gæða.  

Tilboð frá Delta ehf er MTA HARies Tech HAST/070, HAST/100 (leiðrétt prentvilla),  244 kW loft í vatn varmadæla, COP (varmanýtingarstuðull)  2,7 og tilboð frá Dexta sem er CIAT AQUACIAT ILD , 231 kW loft í vatn varmadæla, COP 2,65.
Heildar framkvæmdakostnaður við að kaupa og koma upp varmadælum við mannvirkin er  áætlaður um 15.000.000 króna. Varmadælukerfi nýta rafmagn betur en hefðbundin tækjakostur til upphitunar.  Reikna má með að rekstrarkostnaður vegna upphitunar með rafmagni lækki um allt að 50% á ári.
Að teknu tilliti til verðs og búnaðar samþykkir sveitarstjórn að ganga til samninga við Delta ehf um kaup á varmadælum til upphitunar íþróttamannvirkja, bókasafns og skólahúsnæðis.


Til fjármögnunar á kaupum og framkvæmdum vegna varmadæla við íþróttamannvirki, bókasafn og skólahúsnæði samþykkir sveitarstjórn Skaftárhrepps að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð allt að 15.000.000 kr., fimmtán milljónir króna, í samræmi við skilmála Lánasjóðsins. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Jafnframt er staðfest fullt og ótakmarkað umboð Eyglóar Kristjánsdóttur kt. 051274-3509, f.h. Skaftárhrepps til þess að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.2.    Erindi frá Háskólafélagi Suðurlands um hlutafjáraukningu, dags. 7.júní 2013.
Á aðalfundi Háskólafélagsins á Flúðum þann 6. júní s.l. voru samþykktar breytingar á samþykktum félagsins í þá veru að hlutafé félagsins var aukið um tæpar 6,3 milljónir króna.  Gert er ráð fyrir að Sveitarfélagið Hornafjörður leggi þetta nýja hlutafé inn í félagið og hljóti þar með aðild að Háskólafélagi Suðurlands.  Forsenda þessarar aukningar hlutafjár er að sveitarfélög innan Háskólafélagsins falli frá forkaupsrétti sínum í þessu sambandi.
Sveitarstjórn Skaftárhrepps fellur frá forkaupsrétti sínum varðandi þessa hlutafjáraukningu.

 

3.    Beiðni um umsögn um rekstrarleyfi, Sýslumaðurinn í Vík, dags. 3. júní 2013.
Sótt er um nýtt rekstrarleyfi til reksturs gistingar í flokki I, í veiðihúsi í Tungu, Skaftárhreppi, fyrir Ferðaþjónustuna Efri-Vík, Efri-Vík, kt. 631078-0799.
Þorsteinn vekur athygli á vanhæfi sínu og víkur af fundi.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við leyfisveitinguna.

Þorsteinn kemur inn aftur.


4.    Skólaskrifstofa Suðurlands.
Lögð fram ályktun fundar fulltrúa aðildarsveitarfélaga Skólaskrifstofu Suðurlands utan Árborgar frá 29. maí s.l. þar sem þeim tilmælum er beint til aðildarsveitarfélaga Skólaskrifstofunnar að þau fari að fordæmi Árborgar og segi sig úr Skólaskrifstofu Suðurlands.   

Sveitarstjórn leggur til að Skaftárhreppur segi sig úr Skólaskrifstofu Suðurlands og felur sveitarstjóra og oddvita að vinna að lausn sérfræðiþjónustu fræðslumála með eins víðtæku samstarfi og kostur er þannig að skólastarf bíði ekki hnekki af þessum breytingum.  Sveitarstjórn Skaftárhrepps harmar að svona skuli vera komið fyrir sameiginlegu verkefni sveitarfélaganna á Suðurlandi. Jafnframt vill sveitarstjórn færa starfsmönnum Skólaskrifstofu Suðurlands þakkir fyrir vel unnin störf í gegnum tíðina. 
Tillagan samþykkt með 4 atkvæðum, Þorsteinn situr hjá.

Þorsteinn óskar bókunar.

Skólaskrifstofa Suðurlands (hér eftir SKS) hefur um langt árabil verið hornsteinn í samvinnu sveitarfélaga á Suðurlandi. Þetta fyrirkomulag sveitarfélaga með rekstri SKS, hefur skapað metnaðarfulla sérfræðiþjónustu við skóla á svæðinu, verið í fararbroddi í endurmenntun kennara til að halda í við skólaþróun og síðast en ekki síst verið til staðar fyrir skjólstæðinga sína, foreldra og kennara. Þetta gróskumikla starf SKS, með þeim mikla mannauði sem þar er innandyra, hefur verið eftirtektarvert á landsvísu.

Ég harma það, að þessi góða þróun og góða starf SKS, skuli nú vera í uppnámi með ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar að segja sig frá SKS. Jafnframt harma ég að önnur sveitarfélög innan SKS hafi, með ályktun á Hvolsvelli þann 29. maí s.l., mælst til þess að fara að fordæmi Árborgar og segja sig úr SKS. Sérstakar áhyggjur hef ég af skjólstæðingum SKS auk þess sem spurningar vakna um afdrif Art-teymis með þessari ákvörðun. Rétt eins og SKS, hefur Art-teymi unnið mjög gott starf í þágu skjólstæðinga sinna.
Þrátt fyrir úrsögn Sveitarfélagsins Árborgar úr SKS, tel ég að ekki hafi verið fullreynt að halda starfseminni áfram, með endurskipulagningu eða breyttu sniði, með tilliti til nýrrar sveitarfélagaskipan. Að hætta starfsemi SKS er stórt bakslag í samstarfi sveitarfélaga á Suðurlandi.5.    Fundarboð aðalfundar Eldvilja ehf, tilnefning fulltrúa Skaftárhrepps.
Boðað er til aðalfundar Eldvilja ehf þann 18. júní n.k. á Kirkjubæjarstofu.
Sveitarstjórn tilnefnir Þorstein Kristinsson fulltrúa Skaftárhrepps á fundinn.
 

6.    Suðurhálendið, rammaskipulag fyrir Rangárþing ytra, Rangárþing eystra og Skaftárhrepp.
Lögð eru fram drög að rammaskipulagi fyrir suðurhálendið sem unnin eru í samstarfi Rangárþings ytra, Rangárþings eystra og Skaftárhrepps.
Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leiti að drögin fari í auglýsingaferli.

7.    Klausturvegur 12, lóð vegna Þekkingarseturs.
Lagður er fram  lóðarleigusamningur ásamt uppdrætti vegna Klausturvegar 12.  Lóðin er 23.045 m2, með landnúmer 220463.   Leigutaka og samstarfsaðilum hans er heimilt að reisa Þekkingarsetur á lóðinni og önnur mannvirki tengd þeim rekstri.  Lóðin er leigð til 45 ára frá dagsetningu undirskriftar. 
Fyrri leigusamningur dagsettur 6. september 2011, fellur úr gildi við undirskrift þessa samnings.
Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi samning.

8.    Fjárhagsstaða Skaftárhrepps 2013.
Lögð  eru fram gögn úr bókhaldi er sýna 4ra mánaða stöðu sveitarfélagsins. 
Reksturinn er í samræmi við fjárhagsáætlun ársins.

 

II.  Fundargerðir til samþykktar.

1.    92. fundur skipulags- og bygginganefndar 10. júní 2013.
 Fundargerðin í heild samþykkt.

2.    Fundargerð menningarmálanefndar, 31. maí 2013.
Fundargerðin samþykkt.

 

III.                       Fundargerðir til kynningar.

1.    150. fundur Heilbrigðisnefndar Suðurlands, 22. maí 2013.
fundargerðin kynnt.

2.    467. fundur stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, 30. maí 2013.
fundargerðin kynnt.

3.    806. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 31. maí 2013.
fundargerðin kynnt.

4.    4. fundur félagsmálanefndar Félagsþjónustu Rangárvalla- og V- Skaftafellssýslu,
dags. 27. maí 2013. - fundargerðin kynnt.

5.    149. fundur stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands, 3. júní 2013.
fundargerðin kynnt.

6.    Fundargerð stjórnar Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, SSKS, 17. maí 2013.
fundargerðin kynnt.

 

 

 

IV.                      Annað kynningarefni.

1.    Leiðbeiningar til sveitarstjórna um viðauka við fjárhagsáætlun, bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 31. maí 2013 - kynnt.

2.    Hólmsárvirkjun við Einhyrning með miðlun, fyrirhuguð friðlýsing, bréf frá Umhverfisstofnun, dags. 24. maí 2013.
Umhverfisstofnun óskar eftir fundi með forsvarsmönnum sveitarfélagsins - kynnt.

 

V. Samþykkt fundargerðar / Fundarslit


Fundargerð lesin upp, samþykkt og árituð. Fundi slitið kl.  15:10.

 

Næsti fundur boðaður með dagskrá þriðjudaginn 13. ágúst 2013  kl. 11:00.

 


 

 

____________________________
Guðmundur Ingi Ingason

 

 

____________________________
Þorsteinn M. Kristinsson

 

 

____________________________
Jóhannes Gissurarson.

 

 

 ____________________________
Bjarki V. Guðnason

 

____________________________
Jóhanna Jónsdóttir