340. fundur sveitarstjórnar Skaftárhrepps 30. nóvember 2011

Fundargerð.

Sveitarstjórn Skaftárhrepps fundaði miðvikudaginn 30. nóvember 2011.  Fundur hófst kl. 1000 í ráðhúsi Skaftárhrepps.

Þetta er 340. fundur sveitarstjórnar, 13. fundur ársins 2011.

Fundargerð er tölvuskráð af sveitarstjóra og er 2 blaðsíður.

 

Guðmundur Ingi oddviti, býður fundarmenn velkomna.

Mættir undirritaðir sveitarstjórnarmenn ásamt Eygló Kristjánsdóttur, sveitarstjóra. 

Oddviti biður um að við dagskrá bætist:
I. Málefni til umfjöllunar / afgreiðslu
2. Tilnefning í Vatnasvæðanefnd.
3. Íbúafundur á Kirkjubæjarklaustri.

Dagskrárbreyting samþykkt.

 

Dagskrá

Sveitarstjóri og oddviti greina frá gangi mála frá síðasta fundi.

Sveitarstjóri greindi frá því að endurskoðað Aðalskipulag Skaftárhrepps 2010-2022 hefur borist undirritað og staðfest af umhverfisráðherra.

Málefni til umfjöllunar/afgreiðslu

 

1.        Fjárhagsáætlun Skaftárhrepps 2012, seinni umræða.

 

Fjárhagsáætlun 2012 fyrir samantekin reikningsskil A- og B-hluta gerir ráð fyrir að skatttekjur verði 167,58 mkr, framlög jöfnunarsjóðs 79,6 mkr og aðrar tekjur 57,5 mkr. Laun og launatengd gjöld eru áætluð 134 mkr, önnur rekstrargjöld 146,9 mkr og afskriftir 16,8 mkr. Niðurstaða án fjármagnsliða er áætluð jákvæð 7,1 mkr, rekstrarniðurstaða í heild er neikvæð um 17,2 mkr.

Eignir eru samtals áætlaðar 508,1 mkr, skuldir og skuldbindingar 339,2 mkr og eigið fé því 168,9 mkr. Fjárþörf í  árslok er áætluð 25,8 mkr.

 
Á íbúafundi mánudagskvöldið 28. nóvember 2011 voru lagðar fram upplýsingar sem miða eingöngu við A hluta sveitarsjóðs.

 

Í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu telur sveitarstjórn rétt að hafa samband við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga til óformlegra viðræðna.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi áætlun. Gera verður ráð fyrir áframhaldandi hagræðingu og ýtrasta aðhaldi.

 

Sveitarstjórn samþykkir að útsvarshlutfall árið 2012 verði óbreytt, þ.e. 14,48%.
2.                  Tilnefning í Vatnasvæðanefnd.
Sveitarstjórn samþykkti á síðasta fundi sínum, þann 14. nóvember, tillögu frá Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga að tilnefna sameiginlega fulltrúa í nefndina.  Síðar hefur komið fram tillaga um að einn sameiginlegur fulltrúi verði skipaður fyrir V. Skaftafellssýslu.  Telur sveitarstjórn því rétt að vísa tilnefningunni til Héraðsnefndar V. Skaftafellssýslu þar sem hún er sameiginlegur vettvangur sveitarfélaganna í sýslunni.

 

3.         Íbúafundur Kirkjubæjarklaustri 28. nóvember 2011.               
Íbúafundur haldinn í Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri fól sveitarstjórn að semja ályktun um atvinnumál og stöðu sveitarfélagsins.

 

Ályktun

 

Fjölmennur íbúafundur haldinn í félagsheimilinu Kirkjuhvoli Kirkjubæjarklaustri 28. nóvember 2011 skorar á Ríkisstjórn Íslands að bregðast nú þegar við þeim bráðavanda sem blasir við Skaftárhreppi varðandi fjármálalega stöðu sveitarfélagsins.  Tekjusamdráttur í lækkandi útsvari og skerðingu á framlögum Jöfnunarsjóðs er ein helsta orsök þess hver staðan er.

 

Íbúar Skaftárhrepps óska eindregið eftir að stjórnvöld gefi út nú þegar og vinni eftir byggðastefnu þar sem atvinnuuppbygging á landsbyggðinni verði í fyrirrúmi.  Skaftárhreppur hefur á undanförnum árum orðið halloka í uppbyggingu og nýjum tækifærum til atvinnusköpunar.  Fjölbreytt atvinnulíf er undirstaða þess að menning og félagsstörf geti vaxið og dafnað í hverju samfélagi.

 

Það er með öllu ótækt að við þurfum aftur eldgos eða aðrar náttúruhamfarir til þess að vekja athygli á stöðu okkar.

 


II. Samþykkt fundargerðar / Fundarslit

Fundargerð lesin upp, samþykkt og árituð. Fundi slitið kl.  11:30.

 

Næsti fundur boðaður með dagskrá mánudaginn 12.12.2011  kl. 10:00.

 

____________________________
Guðmundur Ingi Ingason

____________________________
Jóna S. Sigurbjartsdóttir

____________________________
Jóhannes Gissurarson.

____________________________
Þorsteinn M. Kristinsson

____________________________
Jóhanna Jónsdóttir