315. fundur sveitarstjórnar Skaftárhrepps 12. apríl 2010

Fundargerð

Sveitarstjórn Skaftárhrepps fundar mánudaginn 12. apríl 2010.  Fundur hefst kl. 1400 í ráðhúsi Skaftárhrepps.

Þetta er 315. fundur sveitarstjórnar, fimmti fundur ársins 2010.

Mættir eru undirritaðir sveitarstjórnarmenn. Elín Heiða Valsdóttir, varaoddviti, hefur boðað forföll og situr Gísli Kjartansson, fyrsti varamaður, fundinn.

Fundargerð er tölvuskráð af sveitarstjóra.

Oddviti býður fundarmenn velkomna.

Oddviti óskar eftir eftirfarandi breytingum á dagskrá: Tekin verði á dagskrá sem liður I-11 staðfesting á afgreiðslu sveitarstjórnar frá 25. mars sl. á erindi undirbúningshóps fyrir Geopark 23. mars 2010 um stofnun sjálfseignarstofnunar; Sem liður I-12, beiðni frá Kjartani Kjartanssyni, f.h. Vélhjólaíþróttaklúbbs Íslands, um að halda akstursíþróttakeppni í landi Ásgarðs 23. maí 2010. Erindinu fylgir afrit af undirrituðum samningi klúbbsins og landeigenda; Sem liður 1-13, erindi frá SASS 8. apríl 2010 um tilnefningu í starfshóp um sameiningu sveitarfélaga; Sem liður IV-7, Ársskýrsla Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja fyrir 2009. Þetta samþykkt og gengið til dagskrár.

Oddviti og sveitarstjóri greina frá gangi mála frá síðasta fundi.

 

Dagskrá

I.                Málefni til umfjöllunar/afgreiðslu.

1.       Þjónustusamningur við Markaðsstofu Suðurlands.

Fyrir liggur til undirritunar þjónustusamningur milli Skaftárhrepps og Markaðsstofu Suðurlands til eins árs um markaðsstarf á Suðurlandi 2010. Kostnaður er 350 kr. pr. íbúa m.v. 1. desember 2009 (450), alls 157.500 kr. Sveitarstjórn samþykkir þátttöku í verkefninu og felur sveitarstjóra að undirrita samninginn fyrir hönd Skaftárhrepps.

2.       Áskorun frá aðalfundi Sambands vestur-skaftfellskra kvenna 13. mars 2010: Ráðning háskólamenntaðra einstaklinga í stöður hjá sveitarfélögunum.

Í áskoruninni felst að sveitarstjórnir í Vestur-Skaftafellssýslu beiti sér fyrir því að heimafólk gangi fyrir þegar ráðið er í störf þar sem háskólamenntunar er krafist. Sveitarstjórn þakkar erindið.  

3.       Áskorun frá aðalfundi Sambands vestur-skaftfellskra kvenna 13. mars 2010: Grunnþjónusta við íbúa í sveitarfélögunum.

Í áskoruninni felst að sveitarstjórnir í Vestur-Skaftafellssýslu dragi hvergi úr grunnþjónustu við íbúana þrátt fyrir efnahagsþrengingar. Sveitarstjórn þakkar erindið.  

4.       Skipulagsstofnun 16. mars 2010: Greiðsla kostnaðar vegna aðalskipulagsgerðar.

Vakin er athygli á því að gefnu tilefni að ekki er gert ráð fyrir öðru en að kostnaður vegna aðalskipulags sé greiddur úr sveitarsjóði eða Skipulagssjóði. Óskað er upplýsinga frá sveitarfélaginu um kostnaðarþátttöku við aðalskipulagsgerð. Erindinu var svarað með bréfi 19. mars 2010 og staðfest að ekki greiði aðrir kostnað við aðalskipulagsgerð í Skaftárhreppi en sveitarfélagið og Skipulagssjóður.   

5.       Alþingi 24. mars 2010: Umsagnarbeiðni um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum (skil á fjármálaupplýsingum), 452. mál.

Sveitarstjórn mun ekki veita sjálfstæða umsögn um frumvarpið en fylgist með afgreiðslu Sambands íslenskra sveitarfélag á erindinu.  

6.        SASS 30. mars 2010: Tillaga um skipulag málefna fatlaðra á starfssvæði SASS.

Í fyrirliggjandi tillögu Sigurðar Helgasonar, ráðgjafa, er reynt að finna málamiðlun milli ólíkra hugmynda sem fram hafa komið um skipulag og starfssvæði fyrir þjónustu við fatlaða þegar verkefnið verður flutt frá ríki til sveitarfélaga um næstu áramót. Tillagan felur í sér að Suðurland verði sameiginlegt þjónustusvæði þar sem núverandi félagsþjónustusvæði verði grunneiningar og þannig verði tryggð sem best aðkoma allra sveitarfélaga.

Sveitarstjórn samþykkir þessa tillögu fyrir sitt leyti.  

7.       Ráðning umsjónarmanns íþróttamiðstöðvar.

Þrjár umsóknir bárust um starf umsjónarmanns íþróttamiðstöðvar sem auglýst var laust til umsóknar 17. mars sl. Sveitarstjórn felur oddvita og sveitarstjóra að  ganga frá ráðningu í starfið í samræmi við umræður á fundinum.

8.       Endurskoðun aðalskipulags: Drög að samstarfsyfirlýsingu Skaftárhrepps og umhverfisráðuneytisins vegna fyrirhugaðrar stækkunar Vatnajökulsþjóðgarðs.

Fyrir liggur í endurskoðaðri útgáfu yfirlýsing um samstarf Skaftárhrepps og umhverfisyfirvalda vegna aðgerða gegn gróður- og landeyðingu á áhrifasvæði Skaftár. Í yfirlýsingunni eru skilgreind markmið samstarfsins og gert ráð fyrir skipun fjögurra manna stýrihóps fulltrúa Skaftárhrepps og umhverfisráðuneytisins til að fylgja markmiðunum eftir. Ráðuneytið mun tryggja stýrihópnum þriggja milljóna króna árlegt fjárframlag til að vinna að smærri verkefnum og undirbúa stærri verkefni. Samkomulagið miðast við fimm ár og verður endurskoðað að þeim tíma liðnum. Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi yfirlýsingardrög sem grunn að áframhaldandi samstarfi, með þeim fyrirvara að ekki liggur enn fyrir yfirlýsing stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs um hefðbundna landnýtingu á svæðinu og uppbyggingu innan þjóðgarðsins eins og samkomulagið gerir ráð fyrir. Jóhannes Gissurarson situr hjá við afgreiðslu málsins.

9.       Kirkjubæjarstofa – Þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri; Greinargerð, febrúar 2010.

Í greinargerðinni, sem Gísli Sverrir Árnason er höfundur að, er tillaga um stofnun samstarfshóps fulltrúa allmargra aðila til að fjalla um og fylgja eftir verkefnum, uppbyggingu og samstarfi á sviði fræða, rannsókna, menningar og upplýsingamiðlunar í Skaftárhreppi. Reiknað er með að samstarfshópurinn ljúki störfum fyrir 1. desember 2010. Sveitarstjórn samþykkir að skipa Jónu S. Sigurbjartsdóttur, oddvita, formann samstarfshópsins.

10.    Borgarafundur í lok kjörtímabils.

Sveitarstjórn samþykkir að boða til almenns borgarafundar um stöðu og framtíð sveitarfélagsins í félagsheimilinu Kirkjuhvoli mánudaginn 26. apríl nk. kl. 20:00

11.    Erindi frá undirbúningshópi um Geopark 23. mars 2010: Stofnun sjálfseignarstofnunar um Geopark.

Sveitarstjórn staðfestir ákvörðun frá  25. mars sl. um þátttöku í stofnun sjálfseignarstofnunar um Geopark í samstarfi við Mýrdalshrepp og Rangárþing eystra. Ekki er reiknað með sérstökum útgjöldum vegna þessa á árinu 2010.

12.    Erindi frá Vélhjólaíþróttaklúbbi Íslands 8. apríl 2010, ásamt fylgiskjali: Beiðni um heimild til að halda akstursíþróttamót í landi Ásgarðs 23. maí 2010.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að umrætt íþróttamót verði haldið.

13.    SASS 8. apríl 2010: Skipun starfshóps um sameiningu sveitarfélaga: Tilnefning fulltrúa.

Sveitarstjórn samþykkir að tilnefna oddvita, Jónu S. Sigurbjartsdóttur, í starfshópinn.

II.              Fundargerðir til samþykktar.

Engar fundargerðir liggja fyrir til samþykktar.

III.            Fundargerðir til kynningar.

1.     772. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 26. febrúar 2010  

2.     291. fundur stjórnar Atvinnuþróunarfélags Suðurlands 3. mars 2010, ásamt minnisblaði  

3.     43. fundur barnaverndarnefndar Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu 3. mars 2010  

4.     Aðalfundur Eignarhaldsfélags Suðurlands 26. mars 2010

IV.            Annað kynningarefni.

1.       Bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu 29. mars 2010 til sveitarstjórna og skólanefnda: Skýrsla um samræmd könnunarpróf haustið 2009  

2.       Húsafriðunarnefnd 10. mars 2010: Tilkynning um styrk vegna Múlakotsskóla

3.       Aðalfundur Vottunarstofunnar Túns fyrir 2009

4.       Lög og reglugerð um búfjárhald  

5.       Ársreikningur Eignarhaldsfélags Suðurlands 2009  

6.       Ársreikningur Lánasjóðs sveitarfélaga 2009

7.       Vaxtarsamningur Suðurlands og Vestmannaeyja: Ársskýrsla 2009

 

V.        Samþykkt fundargerðar / Fundarslit

Fundargerð lesin upp, samþykkt og árituð. Fundi slitið kl. 18:00.

Næsti fundur sveitarstjórnar er ráðgerður mánudaginn 10. maí 2010 kl. 14:00.

 

 

Jóna S. Sigurbjartsdóttir, oddviti       Gísli Kjartansson       

 

 

Jóhannes Gissurarson                         Þorsteinn M. Kristinsson

 

 

Sverrir Gíslason