314. fundur sveitarstjórnar Skaftárhrepps 15. mars 2010

Fundargerð

Sveitarstjórn Skaftárhrepps fundar mánudaginn 15. mars 2010.  Fundur hefst kl. 1400 í ráðhúsi Skaftárhrepps.

Þetta er 314. fundur sveitarstjórnar, fjórði fundur ársins 2010.

Mættir eru undirritaðir sveitarstjórnarmenn.

Fundargerð er tölvuskráð af sveitarstjóra.

Oddviti býður fundarmenn velkomna.

Oddviti óskar eftir að eftirfarandi breytingum á dagskrá: Tekin verði á dagskrá sem liður I-10 áskorun til sveitarfélaga frá menntavísindasviði Háskóla Íslands; Sem liður I-11, aðalfundarboð Eignarhaldsfélags Suðurlands hf. 26. mars 2010; Sem liður I-12, sala húseignarinnar að Skaftárvöllum 10. Tekin verði af dagskrá (II-1) 37. fundargerð æskulýðs- og íþróttanefndar þar sem hún er þegar samþykkt. Þetta samþykkt og gengið til dagskrár.

Oddviti og sveitarstjóri greina frá gangi mála frá síðasta fundi.

Dagskrá

I.                Málefni til umfjöllunar/afgreiðslu.

1.       Þriggja ára áætlun Skaftárhrepps 2011-2013 – Síðari umræða.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi áætlun til næstu þriggja ára 2010-2013. Samkvæmt áætluninni aukast skammtímaskuldir hjá viðskiptabanka um 20 mkr. á tímabilinu. Engar fjárfestingar eða nýframkvæmdir eru ráðgerðar.

2.       Lánasjóður sveitarfélaga 15. febrúar 2010: Aðalfundarboð 26. mars 2010.

Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra að sitja fundinn með umboð fyrir Skaftárhrepp á aðalfundinum 26. mars 2010.

3.       Erindi frá SASS 16. febrúar 2010: Framtíðarfyrirkomulag upplýsingamiðstöðva.

Í tillögum starfshóps á vegum ferðamálastjóra er lýst framtíðarfyrirkomulagi  upplýsingamiðstöðva  er njóti styrks frá Ferðamálastofu. Sveitarstjórn samþykkir að gera athugasemd við fyrirliggjandi tillögu í ljósi vaxandi ferðamannastraums í Skaftárhreppi og áforma um að stórefla starfsemi upplýsingamiðstöðvar á Kirkjubæjarklaustri.

4.       Bréf frá Landgræðslu ríkisins 19. febrúar 2010: Varnir gegn landbroti við Leirá á Mýrdalssandi.

Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti að farið verði í þær aðgerðir sem gerð er grein fyrir í erindi Landgræðslunnar.

5.       Bréf frá Skipulagsstofnun 23. febrúar 2010: Kynning skipulagstillögu með fullnægjandi hætti.

Sveitarstjórn staðfestir móttöku bréfsins.

6.       Bréf frá Vegagerðinni 25. febrúar 2010: Héraðsvegir (áður safnvegir) í Skaftárhreppi.

Tilkynnt er um að Vegagerðin muni frá 1. júlí nk. hætta viðhaldi og þjónustu á götum að þjónustustofnunum á Kirkjubæjarklaustri. Sveitarstjórn staðfestir móttöku erindisins. Sveitarstjóra falið að afla nánari upplýsinga hjá Vegagerðinni.

7.       Bréf frá Skipulagsstofnun 1. mars 2010: Ekki nægir að sveitarstjórn staðfesti fundargerðir án umræðu.

Sveitarstjórn staðfestir móttöku bréfsins.

8.       Bréf frá stjórn Klausturdeildar Rauðakrossins 3. mars 2010: Bekkir við Klausturveg og heilsugæslustöð.

Þorsteinn Kristinsson víkur af fundi. Klausturdeild býður Skaftárhreppi umrædda fimm bekki til eignar án endurgjalds, í núverandi ástandi. Sveitarstjórn þiggur gjöfina og þakkar rausn Klausturdeildarinnar. Þorsteinn kemur aftur á fundinn.

9.       Erindi frá Alþingi 10. mars 2010: Lagafrumvörp til umsagnar.

Alþingi óskar umsagnar um þrjú lagafrumvörp: Frumvarp til skipulagslaga (þskj. 742); Frumvarp til laga um mannvirki (þskj. 743); Frumvarp til laga um breytingar á lögum um brunavarnir (þskj. 744).  Sveitarstjórn telur ekki forsendur fyrir sérstakri umsögn Skaftárhrepps en mun fylgjast með athugasemdum Sambands íslenskra sveitarfélaga við þessi frumvörp.

10.    Áskorun dags. 12. mars 2010 frá nemendum og kennurum við menntavísindasvið Háskóla Íslands: Sveitarstjórn standi vörð um tómstunda og félagsstarf í sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn staðfestir móttöku áskorunarinnar.

11.    Aðalfundarboð Eignarhaldsfélags Suðurlands hf. 26. mars 2010.

Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra að fara með umboð fyrir Skaftárhrepp á aðalfundinum 26. mars 2010.

12.    Sala húseignarinnar að Skaftárvöllum 10.

Fyrir liggja hjá Lögmönnum Suðurlands tvö tilboð að sömu upphæð. Smávægilegur munur er á greiðslufyrirkomulagi samkv. tilboðunum og verður að gera upp á milli tilboðanna á þeim grundvelli. Sveitarstjórn samþykkir að selja Ragnari Smára Rúnarssyni húseignina.

II.              Fundargerðir til samþykktar.

1.     Skýrsla formanns kjörstjórnar Skaftárhrepps vegna þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars 2010.

Fundargerð samþykkt.

III.            Fundargerðir til kynningar.

1.      42. fundur barnaverndarnefndar Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu 3. febrúar 2010.

2.     431. fundur stjórnar SASS 12. febrúar 2010.

3.     119. stjórnarfundur Skólaskrifstofu Suðurlands 15. febrúar 2010.

IV.            Annað kynningarefni.

1.       Frá héraðsnefnd Vestur-Skaftfellinga: Afrit af samningi um stækkun verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Suðurlands.

2.       Ársreikningur Eldvilja ehf 2009.

3.       Samband íslenskra sveitarfélaga 3. mars 2010: Forvarnarskýrsla 2009.

 

V.        Samþykkt fundargerðar / Fundarslit

Fundargerð lesin upp, samþykkt og árituð. Fundi slitið kl. 16:00.

Næsti fundur sveitarstjórnar er ráðgerður mánudaginn 12. apríl 2010 kl. 14:00.

 

 

 

 

Jóna S. Sigurbjartsdóttir, oddviti       Elín Heiða Valsdóttir, varaoddviti    

 

 

 

 

Jóhannes Gissurarson                         Þorsteinn M. Kristinsson

 

 

 

 

Sverrir Gíslason