313. fundur sveitarstjórnar Skaftárhrepps 10. mars 2010

Fundargerð

Sveitarstjórn Skaftárhrepps fundar miðvikudaginn 10. mars 2010.  Fundur hefst kl. 1000 í ráðhúsi Skaftárhrepps.

Þetta er 313. fundur sveitarstjórnar, 3. fundur ársins 2010.

Mættir eru undirritaðir sveitarstjórnarmenn.

Fundargerð er tölvuskráð af sveitarstjóra.

Oddviti býður fundarmenn velkomna.

Gengið er til dagskrár.

 

Dagskrá

I.                Málefni til umfjöllunar/afgreiðslu.

1.       Endurskoðun aðalskipulags Skaftárhrepps.

Sveitarstjóri gerir grein fyrir smávægilegum breytingum sem gerðar hafa verið á skipulagstillögu vegna ábendinga sem fram komu á borgarafundi 8. mars sl. en þær varða aðallega afmörkun á jarðvegsnámum á skipulagsuppdrætti og skráningu þeirra í greinargerð. Búast má við að fleiri athugasemdir komi fram um þetta á næstu vikum. Einnig hefur verið tekið tillit til óska framkvæmdaaðila um að breyta fyrirkomulagi Hnútuvirkjunar við Hverfisfljót til fyrra horfs og skrá sem 40 MW virkjun í stað 60 MW og afmarka fyrir fjallaskála sunnan Rauðhóla í landi Dalshöfða. Loks hafa verið gerðar minniháttar lagfæringar og breytingar í texta greinargerðar. Sveitarstjórn samþykkir þessar breytingar.

 

Sveitarstjórn samþykkir samljóða að fela Jónu Sigurbjartsdóttur, oddvita, Elínu Heiðu Valsdóttur, varaoddvita og Sverri Gíslasyni, sveitarstjórnarmanni, að halda áfram samningaviðræðum við umhverfisráðuneytið og Vatnajökulsþjóðgarð um forsendur stækkunar þjóðgarðsins og varnir gegn aurvandamálum Skaftár. Sveitarstjóri mun einnig taka þátt í samningaviðræðunum.

 

Sveitarstjórn samþykkir að efna til samræðna og funda með fjallskilanefndum og e.t.v. fleiri heimamönnum og fulltrúum umhverfisráðuneytis og Vatnajökulsþjóðgarðs til að ræða ýmis atriði sem óvissa ríkir um.

 

Sveitarstjórn samþykkir að gera fundarhlé.

 

Sveitarstjórn hefur borist áskorun sem er undirituð af 31 íbúa í Skaftártungu um að draga til baka tillögu um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs. Sveitarstjórn staðfestir móttöku áskorunarinnar og verður hún höfð til hliðsjónar við endanlega afgreiðslu tillögunnar að athugasemdaferli loknu.

Tveir úr hópi gesta á sveitarstjórnarfundi, Ólafía Jakobsdóttir og Erlendur Björnsson, óska eftir að taka til máls. Það er samþykkt af sveitarstjórn. Lagður er fram undirskriftalisti með nöfnum 45 íbúa í Skaftárhreppi þar sem lýst er stuðningi við fyrirliggjandi tillögu að stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs og andstöðu við veitingu Skaftár í Langasjó. Sveitarstjórn staðfestir móttöku yfirlýsingarinnar sem höfð verður til hliðsjónar við endanlega afgreiðslu skipulagstillögnnar að athugasemdaferli loknu.

 

Oddviti leggur til að sveitarstjórn samþykki að óska eftir heimild Skipulagsstofnunar til að auglýsa fyrirliggjandi tillögu að endurskoðun aðalskipulags. Þetta samþykkt af Jónu S. Sigurbjartsdóttur, Elínu Heiðu Valsdóttur og Þorsteini Kristinssyni.

 

Jóhannes Gissurarson og Sverrir Gíslason óska eftir eftirfarandi sé bókað: Með vísan í bókun okkar frá fundi sveitarstjórnar Skaftárhrepps 15. febrúar sl. ítrekum við þá afstöðu okkar að um enga frekari stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs verði að ræða fyrr en fyrir liggur afdráttarlaus yfirlýsing umhverfisráðuneytisins um ábyrga aðkomu að varnaraðgerðum vegna aurburðarvandamála á vatnasvæði Skaftár. Að öðru leyti gerum við ekki athugasemd við samþykkta tillögu.

 

 

 

II.        Samþykkt fundargerðar / Fundarslit

Fundargerð lesin upp, samþykkt og árituð. Fundi slitið kl. 12:30.

Næsti fundur sveitarstjórnar er ráðgerður mánudaginn 15. mars 2010 kl. 14:00.

 

 

 

 

Jóna S. Sigurbjartsdóttir, oddviti      Elín Heiða Valsdóttir, varaoddviti   

 

 

 

 

Jóhannes Gissurarson                                    Þorsteinn M. Kristinsson

 

 

 

 

Sverrir Gíslason