312. fundur sveitarstjórnar Skaftárhrepps 15. febrúar 2010

Fundargerð

Sveitarstjórn Skaftárhrepps fundar mánudaginn 15. febrúar 2010.  Fundur hefst kl. 1400 í ráðhúsi Skaftárhrepps.

Þetta er 312. fundur sveitarstjórnar, 2. fundur ársins 2010.

Mættir eru undirritaðir sveitarstjórnarmenn.

Fundargerð er tölvuskráð af sveitarstjóra.

Oddviti býður fundarmenn velkomna.

Oddviti óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá: Undir lið I-9, erindi fá SASS 15. febrúar 2010 um tilnefningu í starfshóp; Sem liður I-13, drög að innkaupareglum Skaftárhrepps; Sem liður II-3, fundargerð 38. fundar æskulýðs- og íþróttanefndar 10. febrúar 2010; Sem liður II-4, fundargerð fjallskilanefndar Skaftárungu 4. febrúar 2010. Þetta samþykkt og gengið til dagskrár.

Oddviti og sveitarstjóri greina frá gangi mála frá síðasta fundi.

 

Dagskrá

I.                Málefni til umfjöllunar/afgreiðslu.

1. Endurskoðun aðalskipulags Skaftárhrepps.

Fyrir fundinum liggja tillögur vinnuhóps um skipulagsmál sem sveitarstjórn skipaði 9. febrúar 2009. Tillögurnar voru ræddar á fundi sveitarstjórnar 18. janúar 2010 en ákveðið að fresta afgreiðslu þeirra vegna fyrirhugaðs fundar með fulltrúum umhverfisráðuneytisins sem boðaður hafði verið 20. janúar til þess m.a. að ræða hugsanlega stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftárhreppi. Á þeim fundi var ákveðið, að í tengslum við stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs yrði gerður samningur milli umhverfisráðuneytisins og Skaftárhrepps um samstarf um vatnsstýringu og varnir gegn gróðurskemmdum á vatnasviði Skaftár. Drög að sameiginlegri yfirlýsingu með útlínum og áherslum þannig samnings liggja nú fyrir. Þessi yfirlýsing markar leið til nánari skilgreiningar á verkefnum og skapar grundvöll til samninga um framkvæmd þeirra og fjármögnun. Einnig er áformað að gera sérstakan samning um stækkun þjóðgarðsins með hliðsjón af þeim forsendum stækkunar sem tilgreindar eru í tillögum vinnuhópsins.

Tillögur vinnuhópsins eru í allmörgum liðum og fela í sér grunn að framtíðarsýn  fyrir sveitarfélagið auk tillagna um ýmsar breytingar í endurskoðuðu aðalskipulagi Skaftárhrepps. Tillögur vinnuhópsins verða felldar inn í greinargerð sem skipulagsráðgjafar sveitarfélagsins (Landmótun) vinna í tengslum við endurskoðunina og liggja mun til grundvallar nánari kynningu fyrir almenningi og stjórnvöldum. Meðal þess helsta er fram kemur á sveitarfélagsuppdrætti sem fylgir tillögum vinnuhópsins eru eftirtalin atriði:

Vatnajökulsþjóðgarður: Tillaga um stækkun: Að norðan ráða sýslumörk frá Vatnajökli að Mýrdalsjökli, þó þannig að fylgt sé útlínum mannvirkjagrunns Tungnaárlóns eins og fyrirliggjandi áætlun Landsvirkjunar gerir ráð fyrir. Að sunnan ræður þjólendulína frá Síðujökli að markalínu miðhálendis sunnan Brytalækjar, en eftir það ræður markalína miðhálendis að Mýrdalsjökli.

Virkjunarkostir. (iðnaðarsvæði): Hólmsárvirkjun með miðlunarlóni við Atley (48 MW); Búlandsvirkjun í Skaftártungu (150 MW); Virkjun Skaftár í landi Skálar (5-6 MW); Virkjun Hverfisfljóts við Hnútu (60 MW);

Fiskeldi (iðnaðarsvæði): Í Botnum;

Vegamál: Tillaga um nýjan landsveg frá Laufbalavatni að Þverá 

Efnisnámur: Fjölgun náma á Álftaversafrétti

Hálendisskálar: Smalaskáli við Atley

Sveitarstjórn samþykkir að leggja tillögur vinnuhópsins til grundvallar endurskoðun aðalskipulags Skaftárhrepps. Þar sem vitað er að skiptar skoðanir eru um ýmis atriði er varða þessar tillögur leggur sveitarstjórn áherslu á að kynning á tillögu sveitarstjórnar að endurskoðuðu aðalskipulagi verði markviss og vönduð þannig að íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum gefist kostur á að gera með formlegum hætti athugasemdir við tillöguna.

Sveitarstjórn samþykkir að boða til almenns borgarafundar til að kynna tillögu sína að endurskoðun aðalskipulags fimmtudaginn 25. febrúar nk. kl 20:00 í félagsheimilinu Kirkjuhvoli. Eftir það verður leitað heimildar Skipulagsstofnunar til að auglýsa tillöguna og hefja lögboðið athugasemda- og umsagnarferli.

Samþykkt af Jónu S. Sigurbjartsdóttur, Elínu Heiðu Valsdóttur og Þorsteini M. Kristinssyni.

Jóhannes Gissurarson og Sverrir Gíslason leggja fram eftirfarandi bókun: Á aukafundi sveitarstjórnar Skaftárhrepps 29. maí 2008 var til umfjöllunar ósk umhverfisráðuneytisins um að Langisjór og aðliggjandi svæði verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Á fundinum gaf sveitartjórn vilyrði fyrir stækkun þjóðgarðsins gegn ákveðnum skilyrðum er varða aurframburðarvandamál Skaftár. Þar sem ekki liggja fyrir af hálfu umhverfisráðuneytisins fullmótaðar tillögur að aðgerðum til varnar landeyðingar af völdum Skaftár né loforð um fjármögnun þeirra framkvæmda getum við ekki fallist á neinar stækkanir þjóðgarðsins umfram það sem nú er.

2. Þriggja ára áætlun Skaftárhrepps 2011-2013 – fyrri umræða.

Sveitarstjórn samþykkir að fela oddvita og sveitarstjóra að undirbúa málið fyrir aðra umræðu. Málinu vísað til annarrar umræðu.   

3. Lánasjóður sveitarfélaga 24. janúar 2010: Beiðni um heimild til að birta upplýsingar um stöðu lána hjá sveitarfélögum.

Sveitarstjórn samþykkir að veita sjóðnum  umbeðna heimild.

4. Landssamband hestamannafélaga 21. janúar 2010: Hálendisvegir, slóðar.

Erindið er hvatning til sveitarfélaga að skerða ekki reiðleiðir í tengslum við yfirstandandi endurskoðun umhverfisráðuneytisins á vegum og slóðum á hálendi Íslands. Sveitarstjórn staðfestir móttöku erindisins og þakkar þær upplýsingar sem fram koma. Sveitarstjórn tekur undir sjónarmið Landssambandsins um að ekki skuli skerða reiðleiðir á háendinu.

5. Reglur um styrkveitingar Skaftárhrepps á móti álögðum fasteignaskatti.

Fyrir liggja drög að reglum um heimild sveitarfélagsins samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 til að veita styrk til greiðslu á álögðum fasteignasköttum eigna sem notaðar eru í viðurkennda menningar-, mannúðar- og tómstundastarfsemi innan sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi drög sem gildandi reglur.  

6. Endurnýjun yfirdráttarheimildar Skaftárhrepps hjá Arion banka hf.

Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir framlengingu á yfirdráttarheimild sveitarfélagsins hjá Arion banka að upphæð 30 mkr til næstu áramóta.

7. Upplýsingamiðstöðin á Kirkjubæjarklaustri.

Fyrir liggur greinargerð vinnuhóps um mál Upplýsingamiðstöðvar Skaftárhrepps sem kynnt var á síðasta fundi. Vinnuhópurinn leggur til að miðstöðin verði fyrst um sinn starfrækt í félagsheimilinu Kirkjuhvoli og gerðir samstarfs-og/eða þjónustusamningar við Vatnajökulsþjóðgarð, Kirkjubæjarstofu og Skaftárelda. Sveitarstjórn samþykkir að unnið verði áfram á grundvelli tillagna vinnuhópsins og felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir.   

8. Jafnréttisstofa 12. janúar 2010: Jafnréttisáætlun Skaftárhrepps.

Jafnréttisstofa óskar eftir upplýsingum um jafnréttisáætlun Skaftárhrepps og framkvæmdaáætlun henni tengda. Í gildi er jafnréttisáætlun Skaftárhrepps frá 1997 sem jafnframt felur í sér framkvæmdaáætlun. Sveitarstjórn felur Elínu Heiðu Valsdóttur og Sverri Gíslasyni að gera tillögur til sveitarstjórnar um endurskoðun jafnréttisáætlunar og endurnýjun framkvæmdaáætlunar.

9. Suðurland – eitt velferðarsvæði; Hugmynd og greinargerð.

Hugmynd og greinargerð um Suðurland sem eitt velferðarsvæði er sett fram af Kristínu Hreinsdóttur og Þorvarði Hjaltsyni í framhaldi af samráðsfundi á vegum SASS 28. janúar sl.  Velferðarmálanefnd SASS hefur lagt til við stjórn SASS að þessi greinargerð verði höfð til hliðsjónar við áframhald umræðna um tilfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Sveitarstjórn þakkar greinargerðina

Sveitarstjórn hefur borist ósk frá SASS dags. 15. febrúar 2010  um tilnefningu fulltrúa í starfshóp um framtíðarskipulag þjónustu vegna tilfærslu málefna fatlaðra. Sveitarstjórn samþykkir að fela Jónu Sigurbjartsdóttur, oddvita, þátttöku í vinnuhópnum.

10. Orkustofnun 29. janúar 2010: Beiðni um umsögn vegna umsóknar Suðurorku ehf. um rannsóknarleyfi.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við að Suðurorku ehf. verði veitt rannsóknarleyfi á vatnasviðum Skaftár og Tungufljóts í Skaftártungu samkvæmt fyrirliggjandi umsókn félagsins til Orkustofnunar.

11. Lögmenn Árborg 3. febrúar 2010: Beiðni, umsögn vegna landsskipta Hlíðar. Erindið var tekið fyrir á 68. fundi skipulags- og byggingarnefndar sem er á dagskrá sem liður II-2 hér að neðan

12. Tilkynning um tengda aðila

Ítrekuð eru tilmæli til sveitarstjórnarmanna að tilkynna um tengda aðila.

13.  Innkaupareglur Skaftárhrepps.

Fyrir liggja drög að innkaupareglum Skaftárhrepps. Sveitarstjórn felur oddvita og sveitarstjóra að fullvinna drögin og leggja fyrir sveitarstjórn til samþykktar.

II.              Fundargerðir til samþykktar.

1.     113. fundur fræðslunefndar 4. febrúar 2010.

Fundargerð samþykkt.  

2.     68. fundur skipulags- og byggingarnefndar 8. febrúar 2010.

Fundargeð samþykkt. Elín Heiða víkur af fundi við afgreiðslu 5. máls.

3.     38. fundur æskulýðs- og íþróttanefndar 10. febrúar 2010.

Fundargerð samþykkt.

4.     Fundargerð fjallskilanefndar Skaftártungu 4. febrúar 2010.

Varðandi áskorun nefndarinnar til sveitarstjórnar er vísað á afgreiðslu liðar I-1 hér að ofan. Fundargerð að öðru leyti samþykkt.

III.            Fundargerðir til kynningar.

1.     771. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga  29. janúar 2010  

2.     124. fundur Heilbrigðisnefndar Suðurlands 4. febrúar 2010  

IV.            Annað kynningarefni.

1.       Afrit af kaupsamningi 28. janúar 2010; Skaftárvellir 2  

2.       Dreifibréf frá Ungmennafélagi Íslands 28. janúar 2010  

3.       Fréttabréf Suðurorku, 1. tölublað, febrúar 2010  

4.       FÁS, Foreldrasamtök á Suðurlandi 17.1.2010: Þakkarbréf og fundargerð  

5.       Hættumat fyrir Kirkjubæjarklaustur, Greinargerð og hættumatskort  

6.       KPMG 2. febrúar 2010:  Skýrsla til sveitarstjóra um stjórnsýslu  

7.       Mennta- og menningarmálaráðuneytið 22. janúar 2010: Niðurstöður úttekta á sjálfsmatsaðferðum grunnskóla haustið 2009  

8.       Samband íslenskra sveitarfélaga 10. janúar 2010: Erindi Orkustofnunar til iðnaðarráðherra

 

V.        Samþykkt fundargerðar / Fundarslit

Fundargerð lesin upp, samþykkt og árituð. Fundi slitið kl. 18:00.

Næsti fundur sveitarstjórnar er ráðgerður mánudaginn 15. mars 2010 kl. 14:00.

 

 

 

 

Jóna S. Sigurbjartsdóttir, oddviti      Elín Heiða Valsdóttir, varaoddviti   

 

 

 

 

Jóhannes Gissurarson                                    Þorsteinn M. Kristinsson

 

 

 

 

Sverrir Gíslason