311. fundur sveitarstjórnar Skaftárhrepps 18. janúar 2010

Fundargerð

Sveitarstjórn Skaftárhrepps fundar mánudaginn 18. janúar 2010.  Fundur hefst kl. 1400 í ráðhúsi Skaftárhrepps.

Þetta er 311. fundur sveitarstjórnar, 1. fundur ársins 2010.

Mættir eru undirritaðir sveitarstjórnarmenn.

Fundargerð er tölvuskráð af sveitarstjóra.

Oddviti býður fundarmenn velkomna.

Gengið er til dagskrár.

Oddviti og sveitarstjóri greina frá gangi mála frá síðasta fundi.

 

Dagskrá

I.                Málefni til umfjöllunar/afgreiðslu.

1.       Endurskoðun aðalskipulags. Tillögur vinnuhóps.

Í fyrirliggjandi skýrsludrögum vinnuhópsins koma fram tillögur um áhersluatrið í yfirstandandi viðræðum við umhverfisráðuneytið og stofnanir þess um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs og aðgerðir til að draga úr landsspjöllum af völdum Skaftár. Jafnframt eru tillögur að öðrum áherslum í tengslum við endurskoðun aðalskipulags Skaftárhrepps. Meðlimir sveitarstjórnar hafa kynnt sér innihald skýrsludraganna. Oddviti þakkar vinnuhópnum vel unnin störf og segir að í tillögum hópsins felist mikil áskorun fyrir íbúa svæðisins. Oddviti leggur til, þar sem skýr svör hafa ekki borist við beiðni sveitarfélagsins til stofnana umhverfisráðuneytisins um aðgerðir til að draga úr gróðureyðingu af völdum Skaftár, og fyrirhugaður er fundur með fulltrúum þeirra stofnana, þann 20. janúar n.k, að fresta ákvörðun um tillögu að stækkun þjóðgarðsins við endurskoðun aðalskipulags þar til niðurstöður þess fundar liggja fyrir. Oddviti leggur til að boðaður verði aukafundur í sveitarstjórn 25. janúar nk. þar sem tekin verði afstaða til niðurstöðu fundarins með ráðuneytinu og þá tekin nánari ákvörðun um tillögu að stækkun þjóðgarðsins. Fram að þeim fundi verður skýrsla vinnuhópsins vinnu- og trúnaðarplagg sveitarstjórnar. 

2.       Rekstur sveitarfélagsins 2010; Sala eigna; Rekstrarhagræðing.

Á fundi sveitarstjórnar 7. desember 2009 lá fyrir kauptilboð frá Guðmundi Inga Ingasyni í íbúð að Skaftárvöllum 2. Sveitarstjórn fól oddvita og sveitarstjóra að meta tilboðið og svara því að fenginni sérfræðilegri ráðgjöf og í samræmi við umræður á fundinum. Matsgjörð fasteignasala um eignina liggur nú fyrir og viðræður hafnar um tilboðið. Sveitarstjórn samþykkir að gengið verði til samninga um sölu íbúðarinnar á grundvelli matsgjörðarinnar og umræðna á fundinum. Sveitarstjórn telur  einnig rétt að huga að sölu annara húseigna sveitarfélagsins ef það reynist hagkvæmt.

Í framhaldi af umræðum sveitarstjórnar á fundi sínum 17. desember 2009 í sambandi við fjárhagsáætlun 2010 samþykkir sveitarstjórn að skipa sérstakan vinnuhóp til að fjalla um frekari hagræðingarmöguleika í  rekstri sveitarfélagsins. Viðfangsefni vinnuhópsins verði m.a. hugmyndir sem fram hafa komið um flutning leikskólans í húsnæði Kirkjubæjarskóla, hagræðing í rekstri íþróttamiðstöðvar og sorporkustöðvar og hugsanleg samnýting eldunaraðstöðu fyrir stofnanir sveitarfélagsins. Sveitarstjórn samþykkir að skipa Jónu Sigurbjartsdóttur, Þorstein M. Kristinsson, Kjartan Magnússon og Sigurlaugu Jónsdóttur í vinnuhópinn. Sveitarstjóri mun starfa með vinnuhópnum.Gert er ráð fyrir að tillögur  vinnuhópsins liggi fyrir á aprílfundi  sveitarstjórnar.

3.               Vinnuhópur um Upplýsingamiðstöðina á Kirkjubæjarklaustri: Greinargerð, janúar 2010.

Sveitarstjórn þakkar vinnuhópnum fyrir greinargerðina og mun taka tillögurnar sem fram koma til athugunar.

4.       Erindi frá Samtökum ungra bænda (ódagsett, janúar 2010): Efling landbúnaðar í Skaftárhreppi og möguleg aðkoma Samtaka ungra bænda að því.

Í erindinu eru ráðamenn Skaftárhrepps hvattir til að stuðla að eflingu landbúnaðar í hreppnum, m.a. með átaki til nýliðunar í greininni. Óskað er eftir fundi með fulltrúum sveitarfélagsins. Sveitarstjórn fagnar erindinu og samþykkir að bjóða fulltrúum samtakanna til fundar í tengslum við sveitarstjórnarfund í febrúar nk.  

5.       Erindi frá Jóni Helgasyni (ódagsett, janúar 2010): Tillaga að samningi milli Eldvilja, Skaftárelda og Skaftárhrepps varðandi Eldmessumynd.

Erindinu er vísað til athugunar og afgreiðslu í tengslum við skipulag upplýsingamiðstöðvar sbr. lið 3.

6.       Erindi frá Klúbbnum Geysi 17. desember 2009: Styrkbeiðni.

Sveitarstjórn telur ekki hægt að verða við þessari styrkbeiðni.

II.              Fundargerðir til samþykktar.

1.      67. fundur skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps 11. janúar 2010.

Þorsteinn víkur af fundi við afgreiðslu 1. máls. Fundargerð samþykkt.

III.            Fundargerðir til kynningar.

1.      40. fundur barnaverndarnefndar Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu 25. nóvember 2009

2.     41. fundur barnaverndarnefndar Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu 16. desember 2009

3.     290. fundur stjórnar Atvinnuþróunarfélags Suðurlands 13. janúar 2010, ásamt minnisblaði

IV.            Annað kynningarefni.

1.       Samband íslenskra sveitarfélaga 2. desember 2009: Frekari hagræðing í starfi grunnskóla

2.       Friður og frumkraftar  17. desember 2009: Markaðsáætlun 2009-2010

3.       BVT ehf. 4.1.2010: Upplýsingar varðandi fjárhagsáætlun félagsþjónustu og barnaverndarnefndar 2010

4.       Fasteignaskrá  Íslands 22. desember 2010: Um útgáfu fasteignaskrár

5.       Samkeppniseftirlitið 23. desember 2009: Opinber útboð, samkeppni og samkeppnishindranir

6.       Intrum Justitia 6. janúar 2010: Kostnaður og breytt verklag við kröfulýsingar og nauðasamninga til greiðsluaðlögunar

 

V.        Samþykkt fundargerðar / Fundarslit

Fundargerð lesin upp, samþykkt og árituð. Fundi slitið kl. 17:00.

Næsti fundur sveitarstjórnar er ráðgerður mánudaginn 15. febrúar 2010 kl. 14:00.

Gert er ráð fyrir aukafundi 25. janúar nk. kl. 14:00.     

 

 

 

Jóna S. Sigurbjartsdóttir, oddviti       Elín Heiða Valsdóttir, varaoddviti    

 

 

 

 

Jóhannes Gissurarson                         Þorsteinn M. Kristinsson

 

 

 

 

 

Sverrir Gíslason