309. fundur sveitarstjórnar Skaftárhrepps 7. desember 2009

Fundargerð

Sveitarstjórn Skaftárhrepps fundar mánudaginn 7. desember 2009.  Fundur hefst kl. 1400 í ráðhúsi Skaftárhrepps.

Þetta er 309. fundur sveitarstjórnar, 11. fundur ársins 2009.

Fundargerð er tölvuskráð af sveitarstjóra.

Oddviti býður fundarmenn velkomna.

Oddviti óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá: Undir lið I-6, bréf frá SASS 3. desember 2009, ásamt fylgigögnum, um tilfærslu málefna fatlaðra á Suðurlandi; Sem liður I-17 erindi frá Guðmundi Inga Ingasyni 3/12/2009, kauptilboð í íbúð að Skaftárvöllum 2; Sem liður III-4 fundargerð 123. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands 3. desember 2009; Sem liður II-3 fundargerð fjallskilanefndar Skaftártunguafréttar19.11; Sem liður II-4 fundargerð fjallskilanefndar Álftaversafréttar 24. nóvember 2009; Þetta samþykkt og gengið til dagskrár.

Oddviti og sveitarstjóri greina frá gangi mála frá síðasta fundi.

 

Dagskrá

I.                Málefni til umfjöllunar/afgreiðslu.

1.       Fjárhagsáætlun fyrir 2010 – fyrri umræða.

Oddvita og sveitarstjóra falið að vinna áfram að áætlunargerð með hliðsjón af umræðum á fundinum. Máinu vísað til síðari umræðu.

2.       Álagning gjalda og þóknun kjörinna fulltrúa 2010.

Sveitarstjórn samþykkir að álagningarhlutfall fasteignagjalda skuli vera óbreytt frá 2009, með vísan til a-, b- og c-liða 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr 4 1995 (máb) og heimild skv. 4. mgr. sömu greinar sömu laga: Fasteignagjöld skv. a-lið 0,625%; Fasteignagjöld skv. b-lið 1,32%; Fasteignagjöld skv. c-lið 1,65%;  Holræsagjald verður 0,15% af fasteignamati húss og lóðar á Kirkjubæjarklaustri.

Reglur um afslátt af fasteignaskatti og holræsagjaldi til elli- og örorkulífeyrisþega í Skaftárhreppi er til skoðunar.

Þóknun fyrir nefndastörf  verður óbreytt frá 2009 (sama og 2008) og tekur ekki vísitöluhækkun: Nefndir á vegum sveitarfélagsins, kr 5.000 fyrir hvern fund; formenn kr 8.500.

Fulltrúar í sveitarstjórn fá 5% af þingfararkaupi á mánuði; varamenn kr 7.500 fyrir setinn fund. Oddviti fær 14% af þingfararkaupi.

3.       Gjaldskrár stofnana sveitarfélagsins 2010.

Sveitarstjórn samþykkir að hækka gjaldskrá vegna hundahalds þannig að árgjald fyrir hvern hund hækki um 7,5% og umsýslu- og skráningargjald einnig. Gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu hækkar um 15%. Gjaldskrár leikskólans Kærabæjar, mötuneytis Kirkjubæjarskóla og Tónlistarskóla Skaftárhrepps hækka um 5%.  Gjaldskrá byggingargjalda tekur breytingum skv. byggingarvísitölu. Gjaldskrá félagsheimilisins Kirkjuhvols verður endurskoðuð. Gjaldskrá íþróttahúss og sundlaugar verður óbreytt um sinn.

4.       Bréf frá Lárusi Helgasyni 16. nóvember 2009: Spilda í landi Efri-Merkur

Bréfritari krefst þess að sveitarstjóri f.h. sveitarstjórnar greiði sér eigi síðar en 10. desember 2009 kr. 33.333.333 í skaðabætur fyrir ógoldna, óheimila leigutöku og óheimila leigu á landi undir ferðaþjónustu í landi Efri-Merkur sl. 19 ár, að viðbættum hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum f.o.m. 10. desember 2002. Jafnframt er þess krafist að sveitarstjórn skili umræddu eignarlandi eins og það var fyrir umrædda notkun og láti fjarlægja skúrbyggingu burt af landinu fyrir 1. febrúar 2010. Sveitarstjórn efast um réttmæti þessarar kröfu og hafnar henni alfarið. Sveitarstjóra falið að gera bréfritara grein fyrir þeirri afstöðu.

5.       Erindi frá félags- og tryggingarmálaráðuneytinu 17. nóvember 2009, ásamt fylgigögnum: Yfirfærsla þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga

Í erindinu koma fram tilmæli til allra sveitarstjórna landsins um að taka á dagskrá og ræða endurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, einkum m.t.t. fyrirhugaðrar yfirfærslu á þjónust við fatlaða til sveitarfélaga árið 2011. Sveitarstjórn staðfestir móttöku erindisins.

6.       Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga 30. nóvember 2009: Tilfærsla á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga.

Bréfið vísar til erindis félags- og tryggingarmálaráðuneytisins sbr. dagskrárlið I-5 hér að ofan og greinir frá eftirfarandi samþykkt frá 27. nóvember sl.: „Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hvetur sveitarstjórnir til að ræða og hefja sem fyrst undirbúning að myndun þjónustusvæða á grundvelli þeirra gagna sem verkefnisstjóri félags- og tryggingarmálaráðuneytisins hefur sent sveitarfélögum um flutning á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Vandaður undirbúningur sveitarstjórnarmanna og starfsmanna sveitarfélaga er undirstaða þess að vel takist til um tilfærslu þessa mikilvæga þjónustuverkefnis til sveitarfélaganna“. Í bréfi SASS 3. desember 2009 kemur fram að velferðarmálanefnd SASS sé að undirbúa ráðstefnu um þetta mál 8. janúar 2010 og í framhaldi af henni sé ráðgert að boða til samráðsfunda með fulltrúum sveitarfélaga innan SASS til að móta stefnu um skipulag þjónustunnar og myndun þjónustusvæða. Sveitarstjórn samþykkir að fela oddvita og varaoddvita að fylgja eftir þessu máli f.h. sveitarstjórnar og vera fulltrúar Skaftárhrepps í viðræðum sveitarfélaga um myndun þjónustusvæða.

7.       Erindi frá Stígamótum (nóvember 2009): Fjárbeiðni fyrir 2010.

Óskað er eftir fjárstuðningi vegna starfsemi 2010. Sveitarstjórn telur sér ekki fært að verða við beiðninni að þessu sinni.

8.       Bréf frá Túni, vottunarstofu 2009-11-19: Sala hlutafjár.

Óskað er eftir tilboðum í hlut þrotabús Baugs Group sem félagið leysti til sín sl. sumar. Sveitarstjórn samþykkir að auka ekki hlutafé Skaftárhrepps og mun því ekki gera tilboð í hlutinn.

9.       Bréf frá Landgræðslu ríkisins 20.11.2009: Beiðni um styrk vegna samstarfsverkefnisins Bændur græða landið.

Farið er fram á 5.000 kr framlag fyrir 39 þáttakendur í verkefninu í Skaftárhreppi, alls 195.000 kr. Sveitarstjórn samþykkir að verða við beiðninni.

10.    Erindi frá Kirkjubæjarstofu 28. nóvember 2009: Styrkumsókn vegna verkefna 2010.

Óskað er eftir verkefnastyrk að upphæð 1.500.000 kr. og gerð grein fyrir mörgum verkefnum sem unnið verður að á næsta ári. Sveitarstjórn telur afar mikilvægt, og aldrei brýnna en nú, að stuðla að því að Kirkjubæjarstofa geti gegnt hlutverki sínu sem miðstöð og tengiliður sveitarfélagsins fyrir ýmis samstarfsverkefni  um þekkingaröflun og atvinuþróun á svæðinu. Sveitarstjórn samþykkir að vísa erindinu til afgreiðslu við gerð fjárhagsáætlunar.

11.    Erindi frá ferðamálaklasanum Friði og frumkröftum 2. desember 2009.

Erindinu fylgir minnisblað frá Ferðamálafélagi Skaftárhrepps og ferðaþjónustuklasanum Friði og frumkröftum þar sem mælst er til við sveitarstjórn að í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir 2010 verði gert ráð fyrir fjármagni til ákveðinna verkefna á sviði ferðamála. Óskað er eftir  viðræðum við fulltrúa sveitarstjórnar um málið. Flest nefndra verkefna eru þegar á fjárhagsáætlun. Oddvita og sveitarstjóra falið að afgreiða erindið fyrir síðari umræðu sveitarstjórnar um fjárhagsáætlun.

12.    Erindi frá endurskoðanda vegna undirbúnings við gerð ársreiknings 2009: Tilkynning um tengda aðila.

Vegna undirbúnings að gerð ársreiknings Skaftárhrepps fyrir árið 2009 hefur verið ákveðið að afla með þar til gerðum eyðublöðum upplýsinga um tengda aðila eins og lög nr. 3/2006 um ársreikninga gera ráð fyrir. Sveitarstjórn staðfesstir móttöku erindisins og felur sveitarstjóra að safna umbeðnum upplýsingum.

13.    Erindi frá Suðurorku ehf 30/11/2009: Beiðni um að Skaftárvirkjun verði sett inn á aðalskipulag Skaftárhrepps.

Sveitarstjórn samþykkir að vísa erindinu til starfandi vinnuhóps um skipulagsmál.  

14.    Erindi frá Hæstarréttarlögmönnum 30. nóvember 2009: Landamerki jarða.

Ítrekun á erindi lögmannsstofunnar dags. 8. október 2009 þar sem staðhæft er, f.h. umbjóðanda, að stofnskjal fasteignar/lóðar með heitinu Syðri-Steinsmýri lóð nr. 186342 sem sögð er úr landi ríkisjarðar með landnr. 163459 sé í raun í eignarlandi umbjóðanda, Efri-Fljóta 1, og þessi ráðstöfun því algjörlega óréttmæt og byggingar á lóðinni reistar í óleyfi. Óskað er eftir að sveitarstjórn taki formlega afstöðu til málsins. Við athugun hefur komið í ljós að einhver óvissa virðist vera um landamörk, og þó e.t.v. frekar afnotarétt, á umræddum stað og eru ábúendur/landeigendur að skoða málið í samstarfi við sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneytið. Sveitarstjórn telur rétt að fresta afgreiðslu þessa erindis þar til þau mál skýrast.

15.    Erindi frá nefndasviði Alþingis 2. desember 2009: Umsagnarbeiðni um frumvarp til laga um sveitarstjórnarlög.

Sveitarstjórn samþykkir að veita ekki sjálfstæða umsögn um frumvarpið en fylgjast með afgreiðslu erindisins hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

16.    Erindi frá undirbúningshópi um Geopark 2. desember 2009.

Í september 2009 var settur sérstakur undirbúningshópur þriggja sveitarfélaga (Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps og Rangárþings  eystra) til að meta hugmynd um Geopark í ljósi fyrirliggjandi skýrslu Lovísu Ásbjörnsdóttur. Í erindi sínu óskar undirbúningshópurinn eftir því að viðkomandi sveitarstjórnir taki ákvörðun um það hvort fylgja skuli eftir hugmyndum um Geopark-verkefnið og sækja um aðild að European Geoparks Network. Til þess þarf að ráða starfsmann í 50% staf í eitt ár og er áætlaður kostnaðarhluti Skaftárhrepps 750.000 kr. Erindinu fylgir greinargerð undirbúningshópsins um málið. Sveitarstjórn samþykkir að vísa erindinu til afgreiðslu við gerð fjárhagsáætlunar.

17.            Erindi frá Guðmundi Inga Ingasyni 3. desember 2009: Kauptilboð í íbúð að Skaftárvöllum 2.

Sveitarstjórn felur oddvita og sveitarstjóra að meta tilboðið og svara því að fenginni sérfræðilegri ráðgjöf og í samræmi við umræður á fundinum.

II.              Fundargerðir til samþykktar.

1.     36. fundur æskulýðs- og íþróttanefndar 28. nóvember 2009

Fundargerð saþykkt.

2.     66. fundur skipulags- og byggingarnefndar 30. nóvember 2009

Fundargerð samþykkt. Elín Heiða Valsdóttir víkur af fundi við afgreiðslu 3. máls.  Sverrir Gíslason og Þorsteinn M. Kristinsson víkja af fundi við afgreiðslu 4. máls.

3.   Fundargerð fjallskilanefndar Skaftártunguafréttar 19.11.2009.

Fundargerð samþykkt. Beiðni um framlag til viðhalds á lögréttinni vísað til afgreiðslu í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar. Í ljósi þess sem fram kemur í fundargerðinni smþykkir sveitarstjórn að skora á umhverfisráðherra að beita sér fyrir áframhaldandi þátttöku ríkisins í refaeyðingu og senda honum erindi þess efnis.

3.               Fundargerð fjallskilanefndar Álftaversafréttar 24. nóvember 2009.

Fundargerð samþykkt. Beiðni um framlag til viðgerða á fjallakofa við Hólmsárfoss vísað til afgreiðslu í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar.

 

III.            Fundargerðir til kynningar.

  1. 39. fundur barnaverndarnefndar Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu 28. október 2009
  2. 118. stjórnarfundur Skólaskrifstofu Suðurlands 26. nóvember 2009
  3. 289. fundur stjórnar Atvinnuþróunarfélags Suðurlands 2. desember 2009, ásamt minnisblaði
  4. 123. fundur Heilbrigðisnefndar Suðurlands 3. desember 2009

IV.            Annað kynningarefni.

1.       Bréf frá Ungmennafélagi Íslands 10. nóvember 2009

2.       Bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu 16. nóvember 2009

3.       Opið bréf frá SART (Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði) 18. nóvember 2009

4.       Samkeppniseftirlitið: Pistill 1/2009

5.       Afrit af bréfi SASS til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 18. nóvember 2009

6.       Bréf frá ALTA 26. nóvember 2009

7.       Afrit af umsögn Skaftárhrepps til nefndasviðs Alþingis 1. desember 2009

8.       Auglýsing frá Ferðamálastofu: Styrkir til úrbóta á ferðamannastöðum 2010