Hagnřting Ýslensk skˇgarvi­ar
08.02.2011

Hagnýting íslensk skógarviðar

Veigamikið fyrir þróun íslenskra skóga

Sameinuðu þjóðirnar vilja gera árið 2011 að „Alþjóðlegu ári skóga" í aðildarlöndum sínum. Verkefnið á að auka vitund fólks um mikilvægi skóga og styrkja sjálfbæra umhirðu, vernd og uppvöxt skóga til hagsbóta fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Alþjóðlegt ár skóga leggur okkur Íslendingum til mikilvæga hugmyndafræði og hvatningu þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni, nýsköpun og vistvæna þróun allra skóglenda," segir Hulda Guðmundsdóttir, skógarbóndi í Skorradal og talsmaður verkefnisins. „Það er mjög mikilvægt fyrir íslenskt skógræktarfólk að fá tækifæri sem þetta til að hefja samstillt átak, bæði til að auka vitund okkar allra um mikilvægi skóga hér á landi og til að þróa „keðjuna" frá ræktanda til markaðar," segir Hulda. Á árinu verða kynntir þeir möguleikar sem Íslendingar hafa á sviði skógræktar og hvernig landsmenn geta nýtt sem best skóga landsins til yndisauka, atvinnu- og verðmætasköpunar.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímssson, setur formlega Alþjóðlegt ár skóga 2011 hér á landi við athöfn á Bessastöðum í dag miðvikudaginn 12. janúar kl. 14:30. Við það tækifæri verður forsetanum afhentur fáni með íslenskri útfærslu á alþjóðlegu merki Sameinuðu þjóðanna um ár skóga 2011.

Merkið er hannað utan um þemað „þetta gerir skógurinn fyrir þig" en þemað telst undirstrika þau margháttuðu gildi sem skógar hafa fyrir allt mannlíf. Allir skógar, ræktaðir og óræktaðir, veita skjól og eru mikilvæg búsvæði fjölmargra lífvera. Í skógum er uppspretta matar og þeir varðveita gæði ferskvatns. Skógur er mikilvægur fyrir jarðvegsvernd og gegnir ómetanlegu hlutverki í að viðhalda stöðugu hnattrænu loftslagi og jafnvægi í umhverfinu. Þessir þættir og miklu fleiri sýna fram á að tré eru ómissandi fyrir vellíðan og velferð fólks alls staðar í heiminum.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands, í samstarfi við atvinnulífið og hagsmunasamtök tekur virkan þátt í verkefninu og vill með þátttökunni leggja áherslu á hagnýtingu íslensks skógarviðar og tengingu greinarinnar við framþróun og nýsköpun í hvorutveggja skapandi greinum og hefðbundnum byggingargreinum. Aukin vitund markaðar og aukið framboð á íslensku hráefni skapar ný tækifæri til nýsköpunar. Nýsköpun sem þessi er forsenda fyrir fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og undirstaða sterkrar samkeppnisstöðu þess.

Skógrækt ríkisins, Landbúnaðarháskóli Íslands, Landssamtök skógareigenda, Skógræktarfélag Íslands og Landshlutaverkefni skógræktar munu vinna saman að „alþjóðlegu ári skóga" meðal annars í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð.

Nánari upplýsingar veitir Hulda Guðmundsdóttir, skógarbóndi og talsmaður árs skóga 2011, í síma 893 2789.

Sótt á vef Nýsköpunarmioðstöðvar Íslands; http://nmi.is/nyskopunarmidstod/frettir/nr/1229/