Vatnaj÷kuls■jˇ­gar­ur

 

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður 7. júní 2008 og var við stofnun rúmir 12.000 km² að stærð sem samsvarar um 12% af yfirborði Íslands og er stærsti þjóðgarður í Evrópu. Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu og þriðji stærsti jökull heims. Ríflega helmingur þjóðgarðsins er jökull en innan þjóðgarðsins er að finna samvirkni jarðelds, jarðhita og myndunar jökla, landmótun jökla og vatnsfalla. Vatnajökulsþjóðgarður hefur mikla sérstöðu í náttúrufarslegu tilliti í heiminum, m.a. vegna þess að þar eru átök elds og ísa enn í fullum gangi. Jarðfræði þeirra svæða sem tilheyra Vatnajökulsþjóðgarðinum er fjölbreytt. Eldvirkni og vatnsrof, m.a. eftir hamfarahlaup, einkenna Jökulsárgljúfur. Herðubreið og nágrenni teljast menjar eftir eldgos undir ísaldarjökli og þar má sjá ummerki gliðnunar við plöturek. Askja er dæmigert öskjusig í öflugri megineldstöð, Dyngjufjöllum, en þar og í Öskjueldstöðvakerfinu eru fjölbreyttar menjar gliðnunar og eldvirkni. Margar fleiri megineldstöðvar eru í þjóðgarðinum og sumar skarta sérkennilegu samspili jarðelds, jarðhita og eldgosa. Nægir að nefna Kverkfjöll og Grímsvötn. Í fyrstu mun þjóðgarðurinn ná til alls þjóðgarðsins í Skaftafelli og þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum auk nánast alls Vatnajökuls og helstu áhrifasvæða hans að vestan, norðan, austan og sunnan. Vatnajökulsþjóðgarði er skipt í fjögur svæði Norðursvæði, Austursvæði, Suðursvæði og Vestursvæði. Sex gestastofur og þjónustumiðstöðvar verða í þjóðgarðinum eða nálægt honum. Þar af verður ein staðsett á Kirkjubæjarklaustri sem tilheyrir vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.


Einkennandi fyrir vesturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs eru framhlaupsjöklar. Innan svæðisins eru tvær megineldstöðvar, Grímsvötn sem hefur gosið oftast á Íslandi á sögulegum tíma, ca.70 sinnum, og Bárðarbunga sem er ein stærsta eldstöð Íslands. Jarðhiti við Bárðarbungu bræðir jökulinn og vatnið safnast í stöðuvatn undir jökli sem yfirfyllist á nokkurra ára fresti og þá verða Skeiðarárhlaup. Í Skaftárjökli er jarðhiti en brennsluvatnið rennur í Skaftárkatla sem eru tveir en úr þeim koma jökulhlaup í Skaftá. Skaftárhlaup eiga sér ekki langa sögu, fyrst varð þeirra vart um 1955. Heljargjá og eldvirkni á gossprungum einkenna vestursvæðið. Þekktastir þeirra eru Lakagígar.