Langisjˇr

Langisjór er stöðuvatn sem er 20 km langt og nær á sumum stöðum 2 km breidd. Vatnið er suðvestan Vatnajökuls milli Tungnárfjalla og Fögrufjalla í fallegu og sérkennilegu umhverfi. Flatarmál þess er 27 km², mesta dýpi þess nær 75 m og vatnsborðið er í 670 metrum yfir sjávarmáli. Fjallasýn við vatnið er stórfengleg en sunnan við Langasjó má sjá Sveinstind en austan við hann eru Fögrufjöll. Þau ganga víða með þverhníptum klettahöfðum fram í Langasjó en vatnið er meðal tærustu fjallavatna á Íslandi. Margar eyjar eru í vatninu og landslag er stórbrotið.


Afrennsli Langasjávar er um Útfall, rúma 3 km frá innri vatnsendanum. Þar fellur það í fossi til Skaftár sem nærir lífmikil vötn, ár og votlendi Skaftárhrepps. Nafn sitt dregur vatnið af lengdinni, 20 km, en umhverfi þess er þannig háttað að hvergi sér að vatninu fyrr en komið er að því. Svo gott sem allt umhverfi vatnsins er gróðurlaus auðn og engar heimildir geta um vatnið fyrr en á seinni hluta 19. aldar. Langisjór er dýrmæt náttúruperla á hálendi Íslands enda óvenjuleg landslagsfegurð á ósnortnu víðerni.


Lengi vel voru til umræðu áform Landsvirkjunar um að veita Skaftá í Langasjó og nýta vatnið í virkjanirnar á Tungnár- og Þjórsársvæðinu. Þá var einnig ætlunin að hefta sandburð í Skaftárhlaupum en sandburðurinn er talinn að ógna Eldhrauni. Umræðan um verndun Langasjávar var hvað heitust veturinn 2005/2006. Sérstaða Langasjávar auk náttúrufegurðarinnar er að hann er stöðuvatn milli móbergshryggjanna sem einkenna landsvæðið frá Síðuafrétti í suðri að Þórisvatni í norðri og gera það einstakt á jörðinni. Fyrirhugað er að Langisjór og nærliggjandi svæði verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.